Logi Geirsson hélt fyrirlestur fyrir eldri nemendur Sandgerðisskóla
Logi Geirsson, landsliðsmaður í handbolta, hélt fyrirlestur fyrir 6.-10. bekk í Grunnskóla Sandgerðis um hvernig maður á að vera unglingur og halda sig á réttri braut á þessum ungu árum. Foreldrum var einnig boðið til að mæta og var nokkuð góð mæting. „Það hefur verið mikið sótt eftir góðum fyrirlestri um unglingsárin og til að veita góðan innblástur en ég hef verið út um allt land að halda þennan fyrirlestur og fengið mjög góð viðbrögð,“ sagði Logi. „Ég tók mér hálft ár í að vinna þennan fyrirlestur og sníða hann að ungu kynslóðinni en hann á að skilja mikið eftir sig og vera einskonar leiðarvísir fyrir krakkana.“
Fyrirlesturinn „Það fæðist enginn atvinnumaður“ fyrir grunnskólakrakka hefur vakið mikla athygli og eru krakkarnir mjög áhugasamir um hvernig það er að vera atvinnumaður í íþróttum. „Krakkarnir hafa spurt mjög mikið í gegnum heimasíðuna sem ég stofnaði í kjölfarið af þessum fyrirlestrum og auðvitað svara ég öllum.“ Logi hefur einnig verið að flytja fyrirlestra fyrir fyrirtæki þar sem einblínt er á markmiðssetningu og fyrir eldri nemendur í menntaskólum og háskólum. „Ég hélt fyrirlestur fyrir nemendur og kennara í Keili og var það verulega vel sótt en hver fyrirlestur er sniðinn að viðkomandi aldri.“
Logi heldur einnig opnar handboltaæfingar fyrir krakkana þar sem þeir geta lært grunntökin í íþróttinni. „Þetta hefur verið að slá í gegn samhliða fyrirlestrunum og vakið áhuga á sumum stöðum. T.d. á Egilsöðum hélt ég æfingu og það varð til þess að gamla handboltafélagið var rifið aftur upp og eru núna æfingar í fullum gangi.“
Íslenska landsliðið í handbolta vann eins og flestir vita silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking og var Logi þar á meðal. Í kjölfarið veitti forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson liðinu fálkaorðuna. „Ég hef unnið ótrúlega mikið af verðlaunum, orðum, merkjum og fleiru og það segir mér að ég sé marktækur fyrirlesari þegar að kemur að atvinnumennsku og hvernig á að komast þá leið,“ sagði Logi.
Logi Geirsson er núna full bókaður næstu vikurnar í fyrirlestrum og handboltaæfingum en krakkar eru hvattir til að heimsækja heimasíðu Loga og spyrja hann spjörunum úr.
VF-Myndir/siggijóns
Krakkarnir voru æstir í að fá eiginhandaráritun að fyrirlestri loknum.