Ljúffeng epli og vínber úr gömlum verðlaunagarði
„Það er hægt að rækta nær allt hér á Suðurnesjum og gaman að sjá þessu fínu epli koma upp,“ segir Þórey Óladóttir, áhugakona um gróður og rækt, en hún setti niður rúmlega metrahátt eplatré í vor í garðinum hjá sér. Víkurfréttir fygldust með þegar hún smakkaði eitt eplið og niðurstaðan var ánægjuleg, sætt og ljúffengt epli af Skólaveginum í Keflavík.
Þórey og Ómar Ólafsson maður hennar hafa búið í gömlu húsi við Skólaveg 23 í tæpan aldarfjórðung en húsið er byggt um 1960. Garðurinn var valinn verðlaunagarður Keflavíkur 1970 en fyrstu eigendurnir voru áhugasamir um gróður og garðrækt.
Þau hafa frá því þau festu kaup á húsinu gert ýmislegt í því að laga og endurnýja og una hag sínum vel í þessu einu af elstu húsum gamla bæjarhluta Keflavíkur.
„Við höfum sinnt garðinum, gryjsað slatta og endurnýjað ýmislegt. Við söguðum niður af mjög stórum grenitrjám sem höfðu verið verið í garðinum frá upphafi. Þau voru farin að skyggja á birtu og sól. Ég hef verið dugleg að sá fyrir sumarblómum og hef haft mjög gaman af því. Ég sái til dæmis alltaf fyrir blómi sem heitir morgunfrú sem er fallegt appelsínugult blóm,“ segir Þórey en í garðinum er hún með lítið gróðurhús sem þau fengu gefins um árið og settu það upp í garðinum. Þar hefur hún t.d. ræktað vínber og fleiri tegundir berja. Hún segir að það hafi gengið vel og við smökkuðum vínberin sem eru mjög góð. Þá nýtir hún sólber og hindber af trjám úti við í garðinum og notar þau í sultugerð.
En okkur lék forvitni á að vita meira um eplatréð.
„Ég fékk þetta fína eplatré í Gróðrastöðinni Glitbrá í Sandgerði í maí. Þá voru komnir sex eplavísar á tré sem var 130 sm. hátt og þeir hafa allir haldist nema einn. Það hefur verið gaman að fylgjast með vexti þeirra. Þrátt fyrir sólarleysi og lélegt sumar þá hefur þetta gengið ágætlega. Þetta er gott yrki, vel alið í Sandgerði, greinilega sterkt og þarf ekki mikinn hita. Ég hef líka kannski dekrað það aðeins meira út af því og hef gefið því áburð og sinnt því vel. Ég setti upp stífur við það og fórnaði nælonsokkum til að stífa það og það hefur verið mjög skemmtilegt að fylgjast með þessari tilraun.“
Þórey er deildarstjóri á leikskólanum Tjarnarseli sem er í göngufæri frá heimili hennar og hún mun flytjast í gamla barnaskólann við Skólaveg 1 en þar verður ný deild skólans með aðsetur. „Ég fæ líka útrás fyrir þetta áhugamál mitt í vinnunni sem er bara plús,“ sagði Þórey og gaf tíðindamanni Víkurfrétta bita af fyrsta eplinu úr verðlaunagarðinum við Skólaveg. Hann getur staðfest að það er ljúffengt og gott.