Mannlíf

Ljósanótt sett í 20. sinn - Salka Sól söng í skrúðgarðinum
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
fimmtudaginn 5. september 2019 kl. 14:48

Ljósanótt sett í 20. sinn - Salka Sól söng í skrúðgarðinum

Tuttugasta Ljósanóttin fór vel af stað. Fjölmargir bæjarbúar komu á setningarathöfn í skrúðgarðinum í gær, miðvikudag, sungu inn Ljósanótt með sönghóp úr grunnskólunum og söngkonunni geðþekku Sölku Sól, hittu vini og þáðu pylsur sem boðið var upp á vegna afmælis hátíðarinnar.

Setningarathöfnin markar upphaf Ljósanætur ár hvert. Í kjölfarið hefjast fjöldi dagskrárliða um allan bæ. Listsýningar opna, verslanir lengja opnunartíma og fólk gerir sér glaðan dag fram eftir kvöldi.

Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept karl
Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept karl

Í gær frumsýndi Með blik í auga hópurinn tónlistarsýninguna „Manstu eftir Eydísi?“ fyrir fullum Stapa. Þar sveif andi Eighties áratugarins yfir vötnum og varð enginn svikinn af þeirri tónlistarveislu. Tvær sýningar verða í Stapa á sunnudag.

Listaveislan heldur áfram í dag með opnun fleiri sýninga og óvæntra stefnumóta, eins og listakonurnar Gunnuhildur Þórðardóttir, Inga Þórey Jóhannsdóttir, Kristín Rúnarsdóttir, Margrét Jónsdóttir, Sossa og Valgerður Guðlaugsdóttir lofa í Bíósal Duus Safnahúsa.

„Veruleikinn og vindingar hans“ heitir sýning á úrvalsgrafík frá Póllandi sem opnuð verður í listasal Duus Safnahúsa kl. 18:00 í dag. Sýningin er sérstaklega valin fyrir Listasafnið af Jan Fejkiel, forstöðumanni Fejkiel gallerísins í Kraká, en sú stofnun nýtur mikillar virðingar innan og utan Póllands fyrir vandaðar sýninga- og útgáfustarfsemi í þágu pólskrar grafíklistar. Þess ber að geta að af þeim fjórðungi íbúa Reykjanesbæjar af erlendum uppruna eru flestir frá Póllandi. Þeir taka sífellt meiri þátt í dagskrá Ljósnætur.

 Á vef Ljósanætur má finna hátt í 60 skráða viðburði í dag. Sýningar, tívolí, söngstund, púttmót, leirbakarí, sælkerasinnep, hafsalt, sögur og ljóð, skotfimi, Sigga Kling og plastlaus lífsstíll, svo fátt sé nefnt. Þess bera að geta að Ljósanótt er plastlaus í ár.

Það verður enginn svikinn af dagskrá Ljósanætur og vonandi verða allir í stuði, svo vitnað sé í titil málverkasýningar Fríðu Rögnvalds.

Nánar um dagskrá er að finna á http://www.ljosanott.is