Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ljósanótt sett á fimmtudag
Þriðjudagur 31. ágúst 2010 kl. 16:25

Ljósanótt sett á fimmtudag

Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð Reykjanesbæjar verður haldin í  11. sinn dagana 2. – 5. september.


Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð Reykjanesbæjar verður haldin dagana 2. – 5. september og verður formlega sett n.k. fimmtudag þegar grunnskólabörn bæjarins sleppa marglitum blöðrumt til himins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Dagskráin þessa hátíðardaga er fjölbreytt og sniðin að þörfum allrar fjölskyldunnar. Bæjarbúar taka virkan þátt í hátíðinni og framboð menningarviðburða hefur aukist ár frá ári jafnt og gestafjöldi. Áhersla er lögð á viðamiklar uppákomur frá fimmtudegi til sunnudags en hápunktur hátíðarinnar er á laugardeginum.

Tónlistin leikur stórt hlutverk á Ljósanótt í rokkbænum Reykjanesbæ og má þar nefna rokktónleika í Rokkheimum Rúnars Júlíussonar, bílskúrstónleika eldri kappa, tónleikasyrpu í Duushúsum og hátíðartónleika í Stapa. Tónleikar unga fólksins verða í Frumleikhúsinu á fimmtudagskvöldið og á föstudeginum koma fram Gilli gill og prófessorinn, Pascal Pinon, Breiðbandið, Elíza Newman, Retro Stefson og Raggi Bjarna og Bjartmar og Bergrisarnir. Hátíðarhöldin ná hámarki á laugardagskvöldið en þá leika Hjaltalín og Páll Óskar, Hjálmar og Mannakort og Ellen Kristjánsdóttir.


Boðið verður upp á kjötsúpu fyrir gesti og gangandi á föstudeginum og árgangagangan á laugardeginum er viðburður sem enginn vill missa af. Skemmtileg barndagskrá verður á stóra sviðinu á laugardeginum auk þess sem boðið verður upp á ratleik í Duushúsum og Tilraunalandið ásamt hoppuköstulum og kassaklifri verður í skrúðgarðinum. Skessan í hellinum er í hátíðarskapi og mun hún bjóða gestum hátíðarinnar upp á heitar lummur við smábátahöfnina í Gróf.


Fjöldi myndlistarmanna sýnir verk sín víðs vegar um bæinn auk þess sem gallerý og vinnustofur listamanna verða opnar. Þess má geta að á þriðja hundrað einstaklinga eru að sýna verk sín á einn eða annan hátt. Einnig opna á Lisasafni Reykjanesbæjar og í sýningarrýminu Suðsuðvestur áhugaverðar sýningar.


Frekari upplýsingar um dagskrá ljósanætur er að finna á ljosanott.is.