Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ljósanótt ótrúlega fjölbreytt og metnaðarfull hátíð
Laugardagur 7. september 2024 kl. 06:03

Ljósanótt ótrúlega fjölbreytt og metnaðarfull hátíð

Berglind Ásgeirsdóttir horfir alltaf á flugeldasýninguna á Ljósanótt. Þá ætlar hún að standa í röð á föstudaginn með yngsta barninu, kíkja á tónleika og halda barnaafmæli

Hvernig varðir þú sumarfríinu? Það litla frí sem ég er búin að taka fór í að leika við börnin, heimsækja fjölda sundlauga, hjóla og bíða eftir sólinni.

Hvað stóð upp úr? Hjólaferð í Hveragerði og kaldi potturinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar? Hversu frábær og dugleg krakkarnir í garðyrkjudeildinni voru þrátt fyrir blautt og kalt sumar. Þau eiga hrós skilið.

Áttu þér uppáhaldsstað til að heimsækja innanlands? Ég get aldrei valið neitt uppáhalds því ég skipti svo oft um skoðun og er mjög hughrifin kona. Það er samt alltaf gaman að þvælast sem lengst í burtu og öllum á SV-horninu holt að heimsækja Heimskautsgerðið við Raufarhöfn reglulega.

Hvað ætlar þú að gera í vetur? Fara í gott partý á Fáskrúðsfirði.

Hvernig finnst þér Ljósanótt? Mér finnst Ljósanótt ótrúlega fjölbreytt og metnaðarfull hátíð.

Hvaða viðburði ætlar þú að sækja á Ljósanótt? Ég mun mæta á afhendingu Umhverfisviðurkenninga á fimmtudeginum, standa í röð með yngsta barninu á föstudeginum, kíkja á tónleika á laugardeginum og halda barnaafmæli á sunnudeginum.  Svo vonandi er tími til að skoða sýningar þarna á milli.

Hver er besta minningin þín frá Ljósanótt? Þegar yngsta dóttir mín kom í heiminn á fæðingardeild HSS, undir hljómi flugelda á Ljósanótt 2017.

Hefur skapast hefð í tengslum við Ljósanótt, eitthvað sem þú gerir alltaf? Ég horfi alltaf á flugeldasýninguna.