Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ljósanótt í Reykjanesbæ haldin í 10. sinn
Mánudagur 10. ágúst 2009 kl. 09:55

Ljósanótt í Reykjanesbæ haldin í 10. sinn


Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð í Reykjanesbæ verður haldin hátíðleg í 10 sinn dagana 3. – 6. september n.k.

Undirbúningur er þegar hafinn og dagskrá óðum að taka á sig mynd. Mikil áhersla verður lögð á tónlist í tilefni 10 ára afmæli hátíðarinnar og má m.a. nefna Ljósanætursvítu í stjórn Þóris Baldurssonar þar sem flutt verða lög eftir þekkta tónlistarmenn bæjarins, klassíska tónlistarveislu á sunnudeginum þar sem rjóminn af tónlistarfólki bæjarins kemur fram, tónlistardagskrá í Duushúsum sem og á stóra sviði á föstudag og laugardag.

Áhersla er lögð á viðamiklar uppákomur frá fimmtudegi til sunnudags þótt hápunktur hátíðarinnar sé á laugardeginum.

Að sögn Valgerðar Guðmundsdóttur menningarfulltrúa Reykjanesbæjar er mikill áhugi á sýningarhaldi líkt og undanfarin ár og allt sýningarrými bæjarins fullt. Nýjar sýningar verður að auki opnaðar á Listasafni Reykjanesbæjar og í sýningarrýminu Suðsuðvestri.

Að venju verður árgangagangan á sínum stað með óvæntu skemmtiatriði í lokin, ekki má gleyma flugeldasýningunni sem talin er ein sú glæsilegasta á landinu.

Í tilefni af afmæli ljósanætur verður nýr og endurbættur vefur hátíðarinnar settur í loftið þann 12. ágúst nk. en meðal nýjunga þar er að hægt verður að fá dagskránna beint í símann í samvinnu við fyrirtækið Ýmir Mobile. Einnig verður dagskráin á aðgengilegra formi auk þess sem hægt verður að skoða fleiri myndir, myndbönd og jafnvel senda inn eigin myndir.

Bæjarbúar eru hvattir til þess að taka virkan þátt í hátíðinni og geta þeir skráð viðburði á vef hátíðarinnar ljosanott.is, segir í tilkynningu frá Reykjanesbæ.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024