Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ljósanótt 2010: Bætist sífellt við dagskrána
Föstudagur 20. ágúst 2010 kl. 11:39

Ljósanótt 2010: Bætist sífellt við dagskrána


Dagskrá Ljósanætur er óðum að taka á sig mynd á vefnum ljosanott.is og bætast við nýir dagskrárliðir daglega.  Þeir sem standa að sýningum og öðrum viðburðum geta sjálfir skráð þá inn á vefinn þar sem þeir bætast við dagskrána.

Að venju verður fjöldi myndlistarmanna með sýningar á Ljósanótt og opnar vinnustofur.
Flestar sýninganna opna fimmtudaginn 2. sept  kl. 18:00  og hefur skapast skemmtileg stemmning í kringum þær. HF-salirnir verða vel nýttir undir sýningar og sömu sögu er að segja um verslunarhúsnæði upp eftir allri Hafnargötunni. Listamennirnar eru á öllum aldri með ólík viðfangsefni og til gamans má geta þess að Leikskólabörnin á Holti opna athyglisverða sýningu á fimmtudagsmorgninum í fjörunni neðan við Tjarnirnar í Innri-Njarðvík. Meðfram fjörugarðinum verða barnastígvél með skemmtilegum listaverkum þar sem börnin tjá hugmyndir sínar um fjöruna í máli og myndum.

Í sölum Duushúsa verður bæði tónlist og myndlist alla Ljósanæturhelgina. Listasafn Reykjanesbæjar sýnir að þessu sinni verk Guðmundar Rúnars Lúðvíkssonar. Um einskonar innsetningu er að ræða þar sem unnið er með ljós, myrkur, veggverk og skúlptúra og ætlast listamaðurinn til þess að gestir snerti listaverkin. Sýningin opnar á föstudeginum kl. 18.
Í Bíósalnum verður ljósmyndasýningin Eldur og ís. Þar sýnir Ellert Grétarsson ljósmyndir sem hann hefur tekið á ferðum sínum um undraheima íslenskra skriðjökla, um útkulnaðar megineldstöðvar og eldvirk svæði. Bíósalurinn og salur bátasafnsins verða svo lagðir undir metnaðarfullan tónlistarflutning á laugardeginum þar sem fram koma kórar svæðisins og fleiri tónlistarhópar. Má þar nefna Ivory og Ebony, félag harmonikkuunnenda og Klassart.

Við munum gera þessu öllu betri skil í miðlum Víkurfrétta á næstunni. Hægt er að fylgjast með fréttum af Ljósanótt og skoða dagskrá hennar á www.ljosanott.is. Að venju verður svo gefin út prentuð dagskrá í vikunni fyrir Ljósanótt.



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024