Ljós í Hrauni Sæmundar
Heldur sína sjöundu einkasýningu
Listamaðurinn Sæmundur Gunnarsson heldur sína sjöundu einkasýningu um þessar mundir. Sýning Sæmundar kallast Ljós í Hrauni en þar fæst listamaðurinn við hraun með áhugaverðum hætti, en sjálfur segir Sæmundur að nýlegir atburðir við Gálgahraun hafi veitt honum innblástur við vinnu verkanna sem unnin eru í akrýl. Sýningin hefst í dag, 12. apríl og stendur til 6. maí. Sýningin fer fram að Skólavörðustíg 5, í húsnæði Ófeigs gullsmiðs í Reykjavík.
Sæmundur er fæddur í Reykjavík árið 1962, en hefur búið í Reykjanesbæ allar götur síðan 1985. Myndlist hefur fylgt Sæmundi frá unga aldri, hann hefur krassað og teiknað frá því að hann man eftir sér. Hann hefur sótt fjölda námskeiða, meðal annars í Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Myndlistarskóla Reykjavíkur, námskeið hjá Þuríði Sigurðardóttur og ýmiss námskeið á vegum Myndlistarfélags Reykjanesbæjar.
Eitt af verkunum á sýningunni.