Ljóðalestur í sundmiðstöðinni í býtið í heilsu- og forvarnarviku

Heilsu- og forvarnarvika hófst í Reykjanesbæ í gær með veglegri dagskrá sem verður út vikuna undir formerkjunum samvinna-þátttaka- árangur. Í morgun hófst dagskráin kl. 7 með ljóðalestri í Sundmiðstöð Keflavíkur.
Helgi Þór Einarsson flutti ljóðaslamm eins og það er kallað í dagskrá en hann las nokkur ljóð fyrir sundlaugargesti sem fylltu pottana og tylltu sér á laugarbakkann á meðan hann las mörg skemmtileg ljóð. Þau voru eftir hann og fleiri meðlimi Bjargarinnar, geðaræktarmiðstöðvar Suðurnesja.

Mikil ánægja var meðal sundlaugargesta sem flestir voru úr hópi fastagesta með þessa uppákomu í býtið. Veður var fallegt þennan þriðjudagsmorgun og menn höfðu á orði að svona lestur væri nauðsynlegur oftar.

Ljóðin voru af ýmsum toga hjá Helga og sundlaugargestir nutu þess að hlusta á lesturinn í morgunblíðunni. 

VF-myndir/pket.


 
	
			

 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				