Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Little Talks stefnir í gullsölu
Miðvikudagur 18. júlí 2012 kl. 17:08

Little Talks stefnir í gullsölu

Ekkert lát er á velgengni íslensku hljómsveitarinnar Of Monsters and Men. Lag sveitarinnar, Little Talks, er í efsta sæti yfir framsækin lög á Billboard og skýtur þar tónlistarmönnum á borð við Black Keys og Linkin Park ref fyrir rass, segir RÚV.

Þetta er önnur vikan í röð sem lagið vermir fyrsta sætið en nýr listi verður væntanlega birtur í dag eða á morgun. Heather Kolker, bandarískur umboðsmaður sveitarinnar, segir ástæðuna fyrir þessum miklu vinsældum vera þá að lagið sé mjög mikið spilað  á bandarískum útvarpsstöðvum. Að sögn Kolker stefnir smáskífan nú óðfluga í gullsölu í Bandaríkjunum en til að ná því takmarki verður plata eða smáskífa að hafa selst í hálfri milljón eintaka.

Kolker segir í samtali við RÚV að frammistaða sveitarinnar í skemmtiþætti Jay Leno hafi einnig haft sín áhrif en bætir því við að sveitin fái öllu jafnan góða dóma fyrir tónleika sína, komi vel fyrir í blaðaviðtölum og leggi hart að sér.  Þá leiki það auðvitað lykilhlutverk að Little Talks sé gott lag.

Plata sveitarinnar, My Head is An Animal, hefur einnig selst vel. Hún hefur verið fjórtán vikur á Billboard 200-listanum og situr í sextánda sæti um þessar mundir. Hæst komst platan í sjöunda sæti. Heather segir að My Head is An Animal hafi samkvæmt síðustu tölum selst í 246 þúsund eintökum í Bandaríkjunum og Kanada. Haraldur Leví Gunnarsson, útgefandi sveitarinnar hér á landi, sagði í samtali við fréttastofu RÚV að hér hefði hún selst í fimmtán þúsund eintökum.


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024