Litrík höfuðföt í púttinu
Þau voru ansi skrautleg mörg höfuðfötin sem glaðværir púttarar settu upp í sólinni í gær. Eldri borgarar Reykjanesbæjar voru þar samankomnir á púttvellinum við Skólaveg og Sólvallagötu en efnt var til púttmóts þar sem aðalmarkmiðið var að vinna keppnina um fallegasta höfuðfatið enda var það þema mótsins.
Þarna var öll flóran af höttum og slíkum höfuðfötum og sumir voru með skemmtilegar hárkollur til þess að ýta undir glæsileikann. Ein flíkin vakti þó sérstaka athygli blaðamanns Víkurfrétta. Einn þátttakandinn bjó víst ekki svo vel að eiga hatt. Hún skartaði því blárri sundskýlu þar sem önnur skálmin var yfir höfðinu, já fólk kann að bjarga sér og léttleikinn var sannarlega til staðar.
Að móti loknu voru krýnd hatta- kóngur og drottning og loks var gætt sér á heimabökuðum kræsingum og skolað niður með kaffi. Einhverjir höfðu á orði að upp frá þessu yrði hattapúttkeppnin örugglega árviss atburður.
Skipuleggjendur mótsins.
Drottning og kóngur í hattalandi.
Hér er svo skýlan góða.
VF myndir Eyþór Sæmundsson.