Lítill prins verður yndisgjöfin í ár
Gerður Sigurðardóttir er þjónustufulltrúi hjá Keili og einnig yfirheklari hjá Ljós í tilveruna þar sem hún vinnur að skemmtilegu handverki sem hún selur í Duus Handverki í Grófinni í Keflavík. Gerður svaraði nokkrum jólaspurningum frá Víkurfréttum
Ertu mikið jólabarn?
„Svona ágætlega. Það eru blandaðar minningar frá þessum tíma bæði góðar og slæmar, en jólabarnið er að vakna aftur þessi jólin og ég er hin hamingjusamasta“.
Áttu einhverja sérstaka minningu frá jólum?
„Já, kannski ekki jólajóla en minningin sterk. Um jólin yrir 26 árum var ég á steypirnum af tvillingunum mínum. Tengdamamma og tengdapabbi, Elísabet og Hilmar bjuggu í Kaupmannahöfn þar sem Elísabet var í kennaraháskóla og vegna þess að börnin gætu komið hvenær sem er þá ákváðu þau að koma heim yfir jólin. Dæturnar fæddust svo 3. Janúar en Elísabet var farin út þar sem hún þurfti að mæta í skólann og missti af en Hilmar fór ekki fyrr en daginn eftir minnir mig og náði að sjá þær. Tengdamamma sá þær ekki nema á myndum fyrr en þær urðu 8 mánaða. Þetta situr í í minningunni vegna þess að tengdó varð mjög svekkt skiljanlega“.
Hvað er ómissandi á jólum?
„Frómasinn sem amma heitin í Grindavík bjó til og ég fór alltaf á Þorláksmessu og sótti skálina mína sem ar sérstaklega búið til handa mér. Mamma mín tók svo við að búa hann til og er að atast í mér að læra þetta sjálf, hahaha, sem er á „túdú“ listanum fyrir þessi jól“.
Hvað finnst þér skemmtilegast um jólahátíðina?
„Samheldnin og gleðin“.
Bakar þú smákökur fyrir jólin?
Já nokkrar tegundir. Er búin að baka þrjár sortir í tvígang nú þegar og á eftir að baka þær nokkrum sinnum í viðbót og prufa nýjar“.
Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?
„Ég er langt komin núna, annars er allur gangur á því, en ég reyni að byrja í ágúst eða þar um bil“.
Hvenær setjið þið upp jólatré?
„Ég set upp allt skraut snemma. Núna var það sett upp í lok nóvember og ég tek líka niður snemma eða um áramót. Þá eru jólin búin og komin afmæli“.
Eftirminnilegasta jólagjöfin?
„Þær eru svo margar. Dæturnar mínar þrjár eru mjög duglegar að koma mér á óvart með gjöfum. Jóla- og afmælis og erfitt að gera þar upp á milli. Núna er reyndar von á barnabarni númer fimm, lítill prins sem settur er 21. desember þannig að þegar hann ákveður að koma þá verður það yndisgjöfin í ár“.
Hvenær eru jólin komin hjá þér?
„Byrjar á aðventunni og hápunkturinn þegar barnabörnin eru búin að taka upp sínar gjafir og ró komin á heimilið“.
Þetta vildi Gerður segja að lokum: „Gleðileg jól og óska ég þess að allir eigi hamingjusöm og friðsæl jól“. og áramót.