Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Listrænn netagerðarmaður sem gefur út bók fyrir jólin
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 19. nóvember 2023 kl. 06:07

Listrænn netagerðarmaður sem gefur út bók fyrir jólin

„Ég er nýbúinn að skrifa bók sem ég nefni Grindavíkurblús,“ segir Aðalgeir Jóhannsson eða Alli á Eyri eins og hann er oft kallaður. Hann er hálfur Færeyingur, bjó ungur þar um tíma en hefur þar fyrir utan alltaf búið í Grindavík. Hugur hans til atvinnu snerist fljótt til netagerðar og eftir að hafa stofnað og rekið netagerðarfyrirtæki til langs tíma með Kristni bróður sínum, bættist við þann rekstur í húsnæðinu þar sem netagerðin var og til varð kaffihúsið Bryggjan. Hróður þess jókst hratt og áður en varði gerðu spænskir kvikmyndagerðarmenn heimildarmyndina Lobster soup og um svipað leyti sýndu viðskiptamenn staðnum áhuga og keyptu af bræðrunum. Alli er einkar listrænn, er mikill sögumaður, semur ljóð, spilar á gítar og síðast en ekki síst er hann meistarapenni og er að gefa út sína fyrstu bók. Sigurbjörn Daði, blaðamaður VF hitti Alla rétt áður en allt fór á hvolf eftir jarðskjálfta í Grindavík.

Lífið í Grindavík og Færeyjum var áhyggjulítið hjá Alla þegar hann var gutti. „Ég fæddist árið 1950 á Valdastöðum í Grindavík en það er einn af bæjunum sem voru á Járngerðarstöðum. Pabbi var Færeyingur og eftir að Grindvíkingur fórst árið 1952, ákváðu foreldrar mínir að flytja til Færeyja og þar bjó ég til ársins 1955 þegar við fluttum aftur til Grindavíkur. Í minningunni voru þetta frábær ár í Færeyjum, það voru kappróðrabátar út um allt, frelsið var mikið og yfir höfuð frábært að vera þar. Þegar ég flutti aftur til Grindavíkur eignaðist ég strax góða vini, Víkurbræður eins og ég kalla þá en bærinn þeirra hét Vík og var nálægt æskuheimili mínu. Ég eyddi miklum tíma þar og man að gengið var inn á heimilið niðri og þau bjuggu á efri hæðinni en á þeirri neðri var fjós, þar voru nokkrar beljur. Eftir að við fluttum aftur heim talaði ég reiprennandi færeysku og mér er minnisstætt eitt sinn þegar ég kom á matmálstíma hjá þeim, Láki pabbi þeirra spurði; „Hvað segirðu nú gamli?“ eins og var vinsæl kveðja í Færeyjum og ég svaraði á færeysku; „púra onki“ sem þýðir „nákvæmlega ekki nokkurn skapaðan hlut“ og það sprungu allir úr hlátri! Kjötsúpan frussaðist svoleiðis út úr þeim á hvort annað, þetta er mér ljóslifandi minning. Við lékum okkur mikið í fótbolta og ég gekk í grunnskóla Grindavíkur og fór svo í Héraðsskólann á Laugarvatni og útskrifaðist þaðan sem gagnfræðingur. Þegar ég var tólf ára gamall fékk ég símhringingu frá Hjalta Magnússyni sem var netagerðarmaður, líklega vissi hann hve pabbi minn var flinkur að fella reknet og hann réði mig í vinnu og ég var fljótur að komast upp á lagið með að fella netin. Ég var mættur eftir skóla og gekk vel og eftir þrjá mánuði hjá Hjalta fékk ég aðra símhringingu, nú frá Jóni Leóssyni sem rak líka netagerð og ég lærði iðnina hjá honum. Ég fór í Iðnskólann í Keflavík til að læra bóklega hlutann og endaði á að verða netagerðarmeistari. Ég vann á sumrin og haustin hjá Jóni en árið 1969, þá orðinn nítján ára gamall, bauðst mér að fara á sjóinn og ég réði mig hjá Sveini Ísakssyni á Hrafni þriðja á haustsíld. Um áramótin fékk ég svo símhringingu frá Dagbjarti Einarssyni í Fiskanesi sem bað mig um að sjá um að fella netin á Geirfugli sem var fyrsti báturinn sem Fiskanes átti og Drífu sem Dagbjartur var skipstjóri á þá. Geirfuglinn var aflahæstur í Grindavík þessa vertíð og nóg að gera hjá mér. Eftir vertíðina réði ég mig á Netaverkstæði Suðurnesja og var þar næstu árin á meðan ég kláraði námið í Iðnskólanum og var á sjónum á veturna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Einbýlishús eftir sjómennsku

Eftir eina vertíðina átti sjómannsferlinum að vera lokið og ég vildi einbeita mér að fótboltanum það sumarið en þá hafði Ólafur Finnbogason skipstjóri, samband við mig og bauð mér að koma með sér í Norðursjóinn á Grímseyingi. Það hafði ekki gengið nógu vel hjá skipinu, þeir rifu nótina aftur og aftur og Ólafur sem átti að leysa skipstjórann af, vildi fá mig með vegna kunnáttu minnar varðandi nætur. Þetta átti að vera í einn mánuð en þeir urðu fleiri og  ég kom svo heim og kláraði skólann fram að jólum. Eftir áramót réði ég mig svo aftur til Sveins Ísaks, nú á Hrafn Sveinbjarnarson og við fórum á loðnuveiðar. Við mokfiskuðum, ég þénaði vel og gat nánast keypt einbýlishúsið mitt fyrir hýruna. Þegar ég kom svo í land, aðstoðaði ég skipverjana á Kára við að grynnka loðnunót og svo upphófst næsti kafli í mínu lífi.“

Netagerðin Möskvi

Alli vildi fara út í sjálfstæðan rekstur og ákváðu hann og Kristinn bróðir hans að stofna netagerð í Grindavík árið 1974. Þeir byrjuðu á að fella reknet og nutu fulltyngis föður síns sem var einkar laginn við það. Fljótlega settu þeir upp kraftblökk til að geta tekið við nótum og gerðu t.d. við síldarnót sem var hífð á vörubíl og svo inn í það litla húsnæði sem þeir voru með.

„Eftir á að hyggja var þetta yfirgengileg bjartsýni en okkur tókst þetta samt og eftir þessu var tekið. Forstjóri Fiskimjöls og Lýsis hafði samband við okkur og bauð okkur húsnæðið sem nú hýsir fornbílasafn Hermanns Ólafssonar í Stakkavík. Þegar gaus í Vestmannaeyjum ætlaði netagerðin Ingólfur sem var þar, að færa starfsemi sína til Grindavíkur og var fyrirtækið komið með lóð við bryggjuna. Eldgosið stöðvaðist svo um sumarið og fyrirætlanir fyrirtækisins breyttust og þá bauðst okkur að byggja nýtt húsnæði undir netagerðina. Búið var að teikna og fá öll tilskilin leyfi en við breyttum teikningunum, við vildum hafa mun hærra til lofts og það reyndist góð ákvörðun. Framkvæmdir hófust vorið 1979 og við hófum starfsemi fjórtán mánuðum seinna. Þetta var mjög hentugt netaverkstæði, við gátum tekið nætur beint inn frá skipunum og sett niður um göt í gólfinu og geymt og við uxum mikið næstu árin, þegar mest var vorum við með hátt í 30 manns í vinnu. Næturnar voru okkar helstu tekjulind en við unnum líka í trollum og felldum net, það var nóg að gera en eftir tvö ár varð aflabrestur í loðnunni og það var kjaftshögg en við héldum þó velli. Fiskveiðistjórnunin breytti veiðiskapnum síðan mikið, þá hættu nótaveiðar að mestu og þar með minnkuðu okkar umsvif umtalsvert en þá var gott að geta sett egg í aðra körfu og næsti kafli hófst,“ segir Alli.

Bryggjan

Alli man ekki hver átti hugmyndina að stofnun kaffihúss á neðstu hæðinni en áður fyrr var rekin þar sjoppa og undir það síðasta höfðu vírar verið splæstir á hæðinni. Það virtist ekki ætla takast að fá tilskilin leyfi til rekstrarins. „Við þurftum að taka glímu við manninn sem sá um að veita okkur leyfið en hann var alveg að gera okkur brjálaða. Það bættust alltaf við kröfur og við héldum um tíma að okkur tækist þetta ekki en svo þegar allt var komið í höfn, spurði hann okkur hvað staðurinn ætti að heita. Við vildum vera menningarlegir, staðurinn átti að heita Iðunn svarta en hún var dóttir landnámsmannsins Moldar-Gnúps. Karlinn sagði að það kæmi ekki til greina, staðurinn gæti ekki heitið neitt nema Bryggjan og það varð úr. Við fengum leyfi til að reka kaffihús en vissum ekki almennilega hvað við ætluðum okkur að gera. Ég kíkti í heimsókn til Geira Doddu [Sigurgeir Sigurgeirsson] sem er kokkur og hann tókst á loft, hvatti okkur til dáða, sagðist hjálpa til og gaf okkur uppskrift af frábærri humarsúpu og eldaði fyrir okkur, hún reyndist verða flaggskipið okkar. Fólk gat gefið staðnum einkunn inni á tripadvisor og fljótlega fór að bera á heimsóknum erlendra ferðamanna á morgnana en þetta er eftir Eyjafjallagosið, þó jókst straumur erlendra ferðamanna til Íslands mikið. Við vorum auðvitað áfram að reka netaverkstæði þar sem vinna hófst kl. sjö á morgnana og Krilli bróðir hellti þá upp á kaffi og opnaði kaffihúsið. Gömlu karlarnir sem voru hættir að vinna fóru fljótt að kíkja í heimsókn og mér er mjög minnisstætt einn morguninn þegar rúta stoppaði fyrir utan og staðurinn fylltist af Ameríkönum. Bíbí konan mín [Sigurbjörg Róbertsdóttir] bakaði allt og smurði brauð, hún er snillingur í því og þetta kunnu ferðamennirnir að meta og hægt og örugglega jókst hróður okkar og áður en varði leið varla dagur án þess að rúta stöðvaðist fyrir framan Bryggjuna á morgnana með nýlenta ferðamenn. Svona gekk þetta næstu árin og okkur óx fiskur um hrygg. Við reyndum allan tímann að vera duglegir að bjóða upp á listviðburði, hvort sem var tónleikar, ljóðalestur, bókalestur eða eitthvað annað og var altalað af tónlistarfólki hversu gott það þótti að halda tónleika á Bryggjunni. Staðurinn er mjög lítill og þá verður þrengra og það sannaðist þarna að þröngt máttu sáttir sitja, nándin á milli tónlistarfólksins og áheyrenda varð mjög mikil svo rafmögnuð stemning skapaðist oft. Annað sem naut mikilla vinsælda var Milliliðalaust, þá fengum við einhvern til að koma og ræða málefni líðandi stundar, fengum þingmenn, knattspyrnuþjálfara eins og Guðjón Þórðarson og fleiri.“ 

Lobster soup og listamaðurinn Alli

Þegar bræðurnir voru búnir að reka Bryggjuna í nokkur ár og hróður staðarins jókst, kom spænskur kvikmyndagerðarmaður í heimsókn og heillaðist af staðnum og stemningunni sem þar myndaðist. Hann fór heim en kom svo til baka með fleiri kvikmyndagerðarmenn með sér og til varð heimildarmyndin Lobster soup. Það var ekki síst hið listræna eðli bræðranna sem heillaði Spánverjana og nokkru síðar urðu breytingar á högum bræðranna. „Ég skráði mig í nám í Tækniskóla Íslands fyrir nokkrum árum og í einu faginu átti ég að skila ritgerð og kennarinn var hrifinn og hvatti mig til að skrifa meira. Þetta hreyfði við mér en um svipað leyti hafði ég byrjað að lesa upp úr bókum fyrir gesti Bryggjunnar og þetta fór að verða hluti af dagskránni. Við bræður tókum á móti ferðamönnunum, sögðum þeim sögur af grindvísku sjólífi og fleiru og oft tók ég mér bók í hönd og las fyrir gesti. Við bræður vorum líka í sönghópi sem við kölluðum Stigamenn, þar spilaði ég á gítar og Krilli, Eiríkur Dagbjartsson og Agnar Steinarsson sungu þríraddað, ég hafði ofboðslega gaman af þessu. Ég mætti sennilega á flesta þá viðburði sem Bryggjan stóð fyrir á Bryggjunni, ég hafði mjög gaman af þeim öllum. Þegar vinnsla við heimildamyndina var í miðjum klíðum kom óvænt upp áhugi viðskiptamanna frá Reykjavík. Þeir sýndu áhuga á að kaupa reksturinn og allt húsnæðið og úr varð að við bræður ákváðum að selja en svo urðu breytingar má segja, nýju eigendurnir spurðu okkur hvort við vildum ekki halda hluta af húsnæðinu uppi eftir fyrir netagerðina og það var ákveðið. Þarna er í raun verið að slá tvær flugur í einu höggi, útlendingarnir dýrka að geta horft í gegnum glerið á netagerðarmennina vinna en veitingasalurinn uppi er einkar vel heppnaður að mínu mati. Mér er minnisstætt þegar fyrstu tónleikarnir voru haldnir uppi fyrir sjómannahelgina 2019, sólin skein skært inn um gluggana og ég varð hálfmeyr, bæði átti ég ekki lengur þennan stað sem hafði verið lifibrauð mitt til margra ára en svo var ég líka svo stoltur af þessum glæsilega stað. Mér líst mjög vel á þessa nýju eigendur, þeir eiga eftir að gera frábæra hluti með Bryggjuna en ég tel að Grindavík eigi mjög mikið inni sem ferðamannastaður. Bryggjan á bara eftir að vaxa og dafna og ég hlakka til að eyða tíma þar í framtíðinni. Ég hef verið nýjum eigendum innan handar með ýmislegt, hef tekið að mér að vera leiðsögumaður fyrir túristana en svo ætla ég bara að einbeita mér að því að njóta heldri áranna. Ég er nýbúinn að skrifa bók sem verður í komandi jólabókaflóði, ég nefndi hana Grindavíkurblús. Þetta eru sögur úr Grindavík og af Grindvíkingum. Hver veit nema ég eigi eftir að skrifa fleiri bækur en svo ætla ég að halda áfram að lesa fyrir gamla fólkið í Víðihlíð en þar er ég alla miðvikudagsmorgna og svo mæti ég líka í Kvikuna á föstudögum og les þar líka. Ég ætla mér að njóta heldri áranna og hlakka til að eyða tíma með konunni minni og sonunum tveimur, þeim Jóhanni og Heiðari,“ sagði Alli að lokum.


Viðtalið var tekið áður en jarðhræringarnar fóru yfir á nýtt stig föstudaginn 10. nóvember og settu framtíð Grindavíkur í óvissu.