Listaverk Erlings afhjúpað við höfuðstöðvar NTE
Listaverk eftir Erling Jónsson var afhjúpað með viðhöfn framan við höfuðstöðvar norska orkufyrirtækisins Nord Tröndelag Elektrisitetsverk (NTE) um síðustu helgi. Um er að ræða útlistaverkið Fönix en höfuðstöðvar NTE eru í Steinsker í Noregi. Sem kunnugt er hefur Erlingur búið í Noregi um árabil.
Listaverkið Fönix sameinar þætti úr sögnum um þennan goðsagnakennda fugl sem orðið hefur að sígíldu tákni upprisu og endurkomu. Skúlptúrinn samanstendur af fimm flýgildum sem minna á eldspúandi árásarþotur og gætu táknað heimsálfurnar fimm sem búa yfir gereyðingarvopnum. Afstaða flýgildanna innbyrðis í verkinu er slík að málmbogar sem tengja þau saman og halda á lofti minna í heild sinni á fugl í hegralíki.
NTE er eitt stærsta orkufyrirtækið í Noregi. Það er í eigu sveitarfélagsins á staðnum og hefur um þúsund manns í vinnu. Árvelta fyrirtækisins nemur 73 milljörðum króna.
Við þetta sama tækifæri færði NTE Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur tveggja milljón króna styrk, sem ætlaður er til uppbyggingar alþjóðamiðstöðvar tungumála í Reykjavík.
Efsta mynd: Norskir fjölmiðlar gerðu því góð skil þegar listaverk Erlings var afhjúpað.
Neðri mynd: Fönix- listaverk Erlings Jónssonar.
Neðsta mynd: Erlingur Jónsson hefur getið sér gott orð sem listamaður í Noregi.