Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Listasýning um landslag og landmótun
Listakonurnar Phyllis Ewen, Soffía Sæmundsdóttir og Elva Hreiðarsdóttir standa að sýningunni. Mynd af vef Reykjanesbæjar.
Miðvikudagur 9. nóvember 2016 kl. 13:17

Listasýning um landslag og landmótun

- Sýningin Við sjónarrönd opnuð á föstudag

Sýningin við sjónarrönd verður opnuð í Listasafni Reykjanesbæjar næsta föstudag, þann 11. nóvember klukkan 18:00. Sýningin er unnin í samvinnu þeirra Elvu Hreiðarsdóttur, Phyllis Ewen frá Bandaríkjunum og Soffíu Sæmundsdóttur. Á sýningunni má sjá verk þeirra þriggja og einnig sameiginlegt sköpunarverk þeirra.

Listakonurnar fjalla meðal annars um landslag og landmótun, umbreytingar, jarðhræringar og áhrif loftslagsbreytinga í listrænni nálgun við viðfangsefni sem einnig hafa verið vísindamönnum hugleikin.  Reykjanesskaginn er eins og opin jarðfræðibók með ummerkjum eldsumbrota og jarðhræringa, land í mótun og á hreyfingu, umlukið opnu hafi sem teygir sig í vestur allt að ströndum Bandaríkjanna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samstarf listakvennanna hófst árið 2014 þegar Phyllis Ewen kom til Íslands vegna sýningar Boston Printmakers sem haldin var í sal íslenskrar Grafíkur. Í framhaldinu komu í ljós snertifletir sem þær hafa unnið með síðan og sýna afraksturinn á þessari sýningu. Phyllis hefur meðal annars unnið verk úr ljósmyndum sem hún tók á Reykjanesi í heimsókn sinni fyrir tveimur árum.

Sýningin stendur til 15. janúar næstkomandi og er í sal Listasafns Reykjanesbæjar í Duus Safnahúsum og þar er opið alla daga frá klukkan 12:00 til 17:00.