Listahátíð barna sett með pompi og prakt
Listahátíð barna í Reykjanesbæ var sett í gær, fimmtudag, í tólfta sinn. Hátíðin er samvinnuverkefni Listasafns Reykjanesbæjar, allra 10 leikskóla bæjarins, allra 6 grunnskólanna, Tónlistarskólans, dansskólanna Bryn Ballett Akademíunnar og Danskompanís og listnámsbrautar Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Nemendur hafa unnið hörðum höndum stóran part úr vetri að verkefnum sínum sem líta dagsins ljós í Duus safnahúsum á hátíðinni en yfirskrift sýninganna er „Dýrin mín stór og smá“. Hægt er að fullyrða að þótt einstaka furðufugl hafi stundum ratað inn í Duus Safnahús hefur dýralífið þar aldrei verið jafn fjölbreytt og nú. Þar getur að líta allt frá músum upp í gíraffa og ýmis konar furðuskepnur og má enginn láta þessar skemmtilegu sýningar fram hjá sér fara.