List án landamæra í annað sinn á Suðurnesjum
Nú er í fullum gangi um allt land listahátíðin List án landamæra sem hefur það að markmiði að brjóta niður hina ýmsu múra sem við höfum tilhneigingu til að byggja í kringum okkur og reka okkur í sífellu á. Hátíðin hefur sérstaklega hvatt til samvinnu fatlaðra og ófatlaðra einstaklinga þar sem skapandi starf þekkir engin takmörk og engin landamæri. Þetta er í annað sinn sem Suðurnesin taka með stolti þátt í listahátíðinni og er hún að ná hátindi sínum um þetta leyti. Dagskráin birtist í heild sinni í síðasta tölublaði VF en hana má einnig sjá á vefsíðunni listanlandamaera.blog.is.
Í Reykjanesbæ verður formleg opnunarhátíð í Frumleikhúsinu á laugardaginn kl. 13.00 með leik- og söngdagskránni „Á bryggjunni.“ Að henni lokinni verður samsýningin „Himinn og haf“ opnuð kl. 14.00 í Krossmóa (Nettó). Sömuleiðis er margt um dýrðir í Garðinum og Grindvíkingar hafa þegar lokið sinni þátttöku í ár. Brjótum niður múrana, tökum þátt í List án landamæra!