Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

List án landamæra
Fimmtudagur 12. febrúar 2009 kl. 14:05

List án landamæra

Listahátíðin List án landamæra er listahátíð þar sem fatlaðir og ófatlaðir einstaklingar stilla saman strengi sína  í listsköpun. Hátíðin er haldin í sjötta sinn núna í vor og  verður sett 22. apríl í Ráðhúsi Reykjavíkur. List án landamæra var fyrst haldin á Evrópuári fatlaðra 2003-2004 og ákveðið var að gera þetta að árlegum viðburði en sífellt fleiri þátttakendur og áhorfendur bætast við á hverju ári.

Hátíðin hefur breyst og þróast ár frá ári og fleiri eru að verða meðvitaðir um gildi hennar í listalífinu, bæði þátttakendur og njótendur.

Áhersla hefur verið á að virkja hátíðina á landsbyggðinni og ætlum við á Suðurnesjum að taka þátt í ár. Mikill áhugi er hjá fulltrúum þeirra sem mætt hafa á undirbúningsfundi vegna hátíðarinnar hér á svæðinu bæði frá sveitarfélögum, skólum og meðal fullorðinna einstaklinga með einhvers konar fötlun.

Þátttakendur í hátíðinni gefa góða mynd af því fjölbreytta og kröftuga listalífi sem hér þrífst. Hæfileikaríkt fólk er á hverju strái en stundum skortir tækifæri fyrir það til að koma sér á framfæri. Fólk með fötlun eða þroskaskerðingu er því miður ekki nógu áberandi í almennu menningarumhverfi. List án landamæra stuðlar að breyta því með samstarfi á milli ólíkra hópa og ólíkra einstaklinga þar sem allir geta sinnt áhuga sínum á listinni saman. Sýnileiki einstaklinga með fötlun er mikilvægur í samfélaginu og eykst með þátttöku þeirra í almennu menningarlífi.  

Ég vil hvetja alla þá, bæði einstkalinga og hópa sem áhuga hafa á að taka þátt í hátíðinni að senda mér línu á [email protected] eða bjalla í mig í síma 695-5108 og ég mun veita nánari upplýsingar. Einnig er hægt að samband á; [email protected] og sjá upplýsingar á síðunni; www.listanlandamaera.blog.is

Samstarfsaðilar í stjórn Listar án landamæra eru: Fjölmennt, fullorðinsfræðsla fatlaðra, Átak, félag fólks með þroskahömlun, Hitt Húsið, Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands.

List án landamæra er listahátíð sem setur sterkan svip á menningarárið á Íslandi og hefur brotið niður ýmsa múra. Á hátíðinni hafa ólíkir aðilar unnið saman að mismunandi listtengdum verkefnum með frábærri útkomu, sem hefur leitt til aukins skilnings manna á milli með ávinningi fyrir samfélagið allt.

Næsti fundur verður haldinn í Bíosal Duus húsa miðvikudaginn 18. febrúar kl. 15.00, fólk er hvatt til að mæta.

Fyrir hönd Listar án landamæra
Jenný Magnúsdóttir


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024