Lionsklúbburinn Æsa í Njarðvík færir góðar gjafir
Lionsklúbburinn Æsa í Njarðvík afhenti formlega í gær góðar gjafir til Íþróttamiðstöðvarinnar í Njarðvík og til Tómstundastarfs eldri borgara.
Lionskonur færðu Íþróttamiðstöðinni að gjöf hjartastuðtæki sem að sögn Hafsteins Ingibergssonar forstöðumanns hússins getur skipt sköpum þegar bregðast þarf við á vettvangi áður en sjúkrabíll kemur á staðinn. Starfsfólk íþróttamiðstöðvarinnar hefur þegar fengið kennslu í notkun tækisins en að sögn Hafsteins verður það kynnt í öðrum íþróttamannvirkjum bæjarins.
Jóhanna Arngrímsdóttir tók við 150.000 kr. styrk lionsklúbbsins sem veittur var til þátttöku eldri borgara í Landsmóti UMFÍ í sumar. Jóhanna sagði að styrkurinn hafi komið sér vel en einnig hafi aðrir aðilar stutt vel við bakið á eldri borgurum sem gerði þeim kleift að taka þátt án mikils tilkostnaðar.
.