Lionessur láta gott af sér leiða
Þær hafa stutt við ótalmörg verkefni í gegnum árin á Suðurnesjum og gera það af heilum hug. Jólakransarnir eru stærsta fjáröflun ársins hjá þeim Lionessum í Keflavík. Jólakransana hafa þær föndrað sjálfar undanfarin þrjátíu ár og er þeim ávallt vel tekið þegar þær byrja að heimsækja fyrirtæki og verslanir í nóvember og bjóða kransana til sölu. Margir einstaklingar vilja einnig eignast jólakransinn frá þeim til að hengja upp á vegg heima hjá sér, því hann er ekki bara girnilegur að sjá og gómsætur á bragðið, heldur er kransinn einnig fallegt jólaskraut.
Hlakka alltaf til
Lionessur er líknarfélag kvenna sem starfar í Keflavík. Konurnar eru á aldrinum frá fertugu og uppúr. Það eru alltaf að koma inn konur í klúbbinn sem hafa áhuga á að leggja sig fram til góðra starfa í samfélaginu. Þær sem eru í fjáröflunarnefnd þetta árið eru þær Hulda Guðmundsdóttir, Magnúsína Guðmundsdóttir, Ásta Einarsdóttir og Áslaug Bergsteinsdóttir en allar félagskonur hjálpast samt að við kransagerðina og fjáröflun.
„Ég hlakka alltaf til að byrja á jólakransinum og hitta Lionessu-vinkonur mínar. Það er svo skemmtilegt að koma saman og föndra kransana. Ég myndi ekki tíma því að sleppa þessari samveru og fara til útlanda. Þetta gengur fyrir hjá mér, við erum að búa til kransana frá svona 20. október til 20. nóvember en við viljum helst vera búnar að selja alla kransana 1. desember svo við getum sjálfar farið að huga að jólunum heima hjá okkur,“ segir Magga sem hefur starfað lengi með Lionessum.
„Já, ég segi það sama. Það er alltaf gaman á vinnufundum. Okkur hefur líka alltaf verið svo vel tekið af fyrirtækjum og verslunum sem kaupa oft fleiri en einn sælgætiskrans því það tilheyrir jólunum að bjóða viðskiptavinum, gestum og gangandi upp á smá nammi. Við vorum svolítið hræddar í hruninu en það gekk samt vel þá að selja jólakransinn og hefur gert undanfarin 30 ár. Við erum núna byrjaðar að fara í fyrirtæki og vonumst til að fá sömu góðu móttökurnar og við höfum fengið í öll þessi ár,“ segir Hulda og brosir.
Hingað fóru peningarnir síðast
Þeir aðilar sem kaupa jólakrans hafa þá einnig stutt líknar- og verkefnasjóð Lionessuklúbbs Keflavíkur og í leiðinni hjálpað þeim að styðja við eftirfarandi verkefni en Lionessur úthlutuðu eftirfarandi styrkjum úr sjóðunum á starfsárinu 2017–2018 eða alls 2.301.000 krónum.
1. Styrkur vegna veikinda og andláts kr. 200.000
2. Rauði Kross Íslands kr. 250.000
3. Framkvæmdasjóður Heiðarbúa kr. 200.000
4. Velferðarsjóður Keflavíkurkirkju kr. 400.000
5. Styrkur til konu vegna veikinda kr. 200.000
6. Íþróttafélagið NES kr. 51.000
7. Styrkur til kaupa á skyndihjálpardúkkum kr. 600.000
8. Styrkur vegna hjólakaupa fatlaðs manns kr. 100.000
9. Orkesta Norden kr. 50.000
10. Krabbameinsfélag Suðurnesja kr. 200.000