Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lífsstílsbreytingarævintýri Sessu
Sunnudagur 25. ágúst 2013 kl. 10:21

Lífsstílsbreytingarævintýri Sessu

Sesselja Svansdóttir er ein af þeim sem hafa farið í gegnum algjöra lífstílsbreytingu og fengið aðstoð frá Húsinu Okkar í Reykjanesbæ. Hér er sagan hennar.

Ævintýrið hjá mér byrjaði 14. janúar 2013. Ein mjög góð vinkona mín var búin að reyna í 6 mánuði að draga mig í Húsið okkar, bæði á þyngdaráskorunarnámskeið og í 24Fit leikfimina. Ég hafði vægast sagt mjög takmarkaðan áhuga á hvoru tveggja og allan þennan tíma tókst mér að humma þetta af mér, án þess þó að segja beinlínis nei. Mig langaði, en nennti ekki. Ég var bara ekki tilbúin.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þessi góða vinkona var búin að segja mér margsinnis að það væri að hefjast nýtt námskeið í 24Fit og hvort ég ætlaði ekki að drífa mig. Ég gat ekki hugsað mér að fara í einhverja leikfimi með hóp af einhverju öðru fólki og alls ekki í einhverja „kellinga“ leikfimi. Gulrótin var sú að fyrsta vikan væri frí og ég hefði enga afsökun fyrir að prufa þetta ekki. Vinkona mín kom meira að segja fyrsta morguninn og náði í mig, svona til að ég kæmi alveg örugglega. Ég get ekki lýst því hvað mér fannst erfitt að vakna fyrstu morgnana.


Ég fann að þessi leikfimi væri sko eitthvað fyrir mig og ákvað í lok fyrstu vikunnar að taka 16 vikna námskeið, sem urðu svo 24 vikur.
Þann 15. janúar byrjaði svo þyngdaráskorunarnámskeið í Húsinu okkar og ástæðan fyrir því að ég skellti mér á það, var að mér leist svo vel á það fólk sem skráði sig um leið og ég. Að sjálfsögðu átti þessa góða vinkona mín líka stóran þátt í því að ég dreif mig á þetta námskeið.
Árangurinn og breytingarnar sem hafa orðið á mér og mínu lífi eru eins og lygasaga. Ég reiknaði aldrei með að ná svona góðum árangri. Þetta hefur hvorki kostað blóð né tár, en alveg heilmikinn svita og mikla skemmtun, þetta er bara búið að vera gaman.

Ég missti það út úr mér að mig langaði að keppa í þríþraut og þá meinti ég á næsta ári, en þær sem heyrðu orð mín sögðu að það yrði ekki á næsta ári heldur núna. Ég hafði ekki hlaupið í 30 ár, en byrjaði að hlaupa í febrúar. Í fyrsta sinn á ævinni hljóp ég 5 kílómetra í apríl og svo 7 kílómetra í júní.

Ég var laus við 5 kíló í mars og 10 kíló í maí, fituprósentan er búin að lækka helling, kviðfitan er búin að lækka um 4 stig og ég er búin að yngjast inni í mér um 18 ár, en öll þessi gildi eru mæld á líkamsskannanum, sem stelpurnar í Húsinu okkar buðu mér að fara á, eftir að ég byrjaði að koma til þeirra. Ég keppti svo í þríþraut 2. júní og fór í fyrsta sinn á Esjuna 9. júní og það alla leið upp á topp. Í dag er ég búin að taka af mér samtals 12 kíló og er miklu hressari. Ég reyni að hreyfa mig 6 daga vikunnar, en stundum verður það minna og stundum meira. Í dag er hreyfingin orðin lífsstíll hjá mér og ég hlakka svo mikið til að byrja aftur í 24Fit í Húsinu okkar 19. ágúst.

Sesselja er ein af mörgum, sem hafa komið í Húsið okkar (gamla K-húsið) við Hringbrautina. Húsið okkar er næringarklúbbur fyrir líkama og sál og þar eru starfandi lífsstílsleiðbeinendur, sem hjálpa fólki að lifa heilbrigðara lífi, með áherslu á mataræði, hreyfingu og hugarfar.

Starfsemin er að fara aftur í gang 19. ágúst, en þá byrjar 24Fit líkamsræktin og hlaupastílsnámskeið Guðbjargar, stafgangan hjá Ragnheiði Ástu byrjar 27. ágúst og svo í september byrjar Ágústa með yoga, Margrét með meðgönguyoga, Aneta með Zumba og þá byrjar líka Lífsstílsnámskeiðið. Allar nánari upplýsingar inni á Húsið okkar á Facebook.