Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lífshlaupið að hefjast
Miðvikudagur 25. janúar 2017 kl. 06:00

Lífshlaupið að hefjast

Lífshlaupið - landskeppni í hreyfingu hefst 1. febrúar næstkomandi. Í Reykjanesbæ verður Lífshlaupinu formlega hleypt af stokkunum með athöfn í Íþróttahúsinu við Sunnubraut þann 1. febrúar klukkan 8:30. Í Reykjanesbæ er núna í gangi verkefnið Heilsueflandi samfélag og verður Lífshlaupið í nánu samstarfi við það og við Skólahreysti. Holtaskóli, sigurvegari Skólahreysti árið 2016, mun taka virkan þátt í athöfninni.

Að sögn Jóhanns Friðriks Friðrikssonar, verkefnastjóra samráðshóps um heilsueflandi samfélag, er markmiðið að stuðla að bættri heilsu allra íbúa Reykjanesbæjar, þar sem áhersla er lögð á að bæta félagslegt og manngert umhverfi og draga úr tíðni lífstílstengdra sjúkdóma með margvíslegu heilsueflingarstarfi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Lífshlaup ÍSÍ á tíu ára afmæli um þessar mundir en með verkefninu eru landsmenn hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er, það er í frítíma, vinnu, í skóla og við val á virkum ferðamáta. „Við viljum hvetja allar stofnanir, skóla og einstaklinga í Reykjanesbæ til þess að skrá sig í Lífshlaup ÍSÍ, en skráningin fer fram á heimasíðu verkefnisins, lifshlaupid.is,“ segir Jóhann Friðrik. Hann bendir einnig á að koma megi ábendingum á framfæri varðandi heilsueflingu í bæjarfélaginu á heimasíðu heilsueflandi samfélags í Reykjanesbæ, heilsueflandisamfelag.is.