Lífið með Lindu Maríu: Ríkidæmi
Það er mér ofarlega í huga þessa dagana hversu heppin ég er. Í öllu álaginu sem lífinu fylgir er alltaf silfurlína, hlutur sem minnir mig á að ég gæti verið svo miklu verr sett. Við erum alla daga að upplifa, gefa eða taka, vinna eða tapa.
Ég er ein af þeim sem tek að mér mun meira en ég ræð við, ég set á mig þessar væntingar og ríf mig niður í takt við það. Ég er alltaf til í að vera til staðar fyrir aðra, gef af mér og set mér það markmið að fara sátt frá verki. Þegar degi fer að halla þá kemur inn meiri þörf fyrir ást og umhyggju, meiri þörf fyrir það góða. Ég finn það á mínu skinni hversu öðruvísi ég er, ég er ég sjálf, alltaf, óþreytandi. Ég finn meira fyrir því sem fullorðin kona hvað felst í því að standa sig í lífinu. Eitthvað sem ég pældi aldrei í þegar ég var lítil, ég ætlaði bara að komast í gegnum lífið, sama hvernig ég færi að því. Ég myndi gera það á mínum forsendum, ein og óstudd. Staðreyndin er samt sú að við getum aldrei gert allt ein, hvað þá ein og óstudd. Mikill misskilningur hjá lítilli stúlku sem vissi ekki betur. Ég hef ekki gert hlutina ein, ég hef upplifað mig eina sem er langt frá því að vera ein í raun. Það er eitthvað sem ég þarf að vinna með í sjálfri mér, ég lít tilbaka og get smám saman séð fólkið sem gerði mig að konunni sem ég er í dag.
Á lífsins braut hef ég margoft komist í tæri við hina skærustu demanta, fólk sem hefur gefið mér svo óendanlega mikið. Ég væri ekki sú sem ég er í dag án þessa fólks. Fólkið sem snertir strengi hjarta okkar, gefur okkur ást og hlýju þegar við væntum þess síst, það er fólkið sem situr eftir þegar við upplifum depurð og vanlíðan. Þegar okkur vantar faðmlag þá er gott að líta í kringum sig, hvort sem það er í núinu eða í minningunni. Við eigum okkar eigið ríkidæmi, stundum þurfum við bara að hægja aðeins á okkur. Ríkidæmið getur verið við sjálf eða fólkið sem er okkur svo mikið án þess að við föttum það, það eru gersemarnar innan um grjótið.
Ást og friður.
Linda María.