Lífið á vellinum í nýrri bók - sagan, samskiptin og smyglið
Í nýrri bók Dagný Maggýjar, Lífið á Vellinum, er sjónum beint að fólkinu sem bjó þar og samskiptum Varnarliðsmanna við Suðurnesjamenn – og smyglinu auðvitað.
Lífið á vellinum er í aðalhlutverki í nýrri bók Dagnýjar Maggýjar en þar er sjónum beint að hinu hversdagslega og því persónulega, að fólkinu sem bjó á vellinum og samskiptum þeirra við Suðurnesjamenn.
„Mér fannst orðið tímabært að skoða þessa sögu á persónulegan hátt og hvíla aðeins hernaðarbröltið,“ sagði Dagný en bókin er byggð á lokaverkefni hennar til meistaragráðu við Háskóla Íslands þar sem hún leitaðist við að skoða menningarleg áhrif veru varnarliðs á Suðurnesjum í hálfa öld. Í því skyni setti hún upp sýninguna Íbúð Kanans í SP húsunum á vellinum sem sló í gegn og stóð samfleytt frá 2013 til 2016.
„Þar fékk ég svo margar spurningar og áhugaverðar sögur frá gestum sem sannfærði mig um að það væri orðið tímabært að skrifa þessa sögu þó það væri ekki nema til að leiðrétta allar þær mýtur sem orðið hafa til um varnarstöðina í Keflavík.“
Segja má að Bandaríkjamenn, hermenn og borgarar, sem störfuðu í varnarstöðinni á Miðnesheiði hafi verið hluti af daglegu lífi Íslendinga í hálfa öld. Árið 2006 lauk þessum kafla í sögu landsins er síðasti hermaðurinn fór af landi brott en talið er að alls hafi rúmlega tvö hundruð þúsund Bandaríkjamenn starfað eða dvalið hér á landi á vegum varnarliðsins frá upphafi.
„Völlurinn var merkilegt samfélag, eins konar litla Ameríka í túngarði Suðurnesja með sinn eigin gjaldmiðil, amerískt rafmagn og amerískar vörur sem Íslendingar höfðu aldrei séð fyrr. Koma hans hafði gríðarleg áhrif á nágrannasveitarfélögin í kring, ekki bara efnahagsleg heldur einnig menningarleg. Þarna störfuðu Suðurnesjamenn í áratugi, kynntust allt annarri matarmenningu eignuðust ameríska vini og smygluðu amerískum tollfrjálsum vörum niður fyrir völl svo eitthvað sé nefnt.“
Erfið saga
– Hvernig fannst þér fólk upplifa þessa sögu?
„Það er merkilegt hversu lítið hefur verið fjallað um þessa sögu og til að mynda hefur verið erfitt að fá myndir af vellinum sem sýna mannlífið þar, flestar myndirnar eru af hernaðarmannvirkjum og tækjum. Möguleg skýring gæti verið sú að fólki finnst þetta erfið saga, henni hefur fylgt skömm og kannski fellur hún þannig ekki vel að okkar sjálfsmynd. Herinn var alla tíð viðkvæmt málefni bæði af pólitískum ástæðum og menningarlegum og því var umræðan um hann alla tíð á neikvæðum nótum. Herstöðvarandstæðingar fóru í Keflavíkurgöngur og menningarelítan hafði af því áhyggjur að bandarísk áhrif myndu hreinlega eyðileggja íslenska menningu, í það minnsta stórskaða hana. Á sama tíma var Varnarliðið atvinnuveitandi hátt í 2.000 Íslendinga og hafði gríðarleg áhrif á allt hagkerfi á Suðurnesjum. Það kemur því ekki á óvart að Suðurnesjamenn voru frekar jákvæðir í garð varnarliðsins enda áttu menn hagsmuna að gæta en þar kynntust menn líka þessu herliði, sem var mikið til fjölskyldur með börn og sjónarhornið varð því allt annað.“
– En hvað með Bandaríkjamenn, hvernig leið þeim á Íslandi?
„Það kom mér verulega á óvart hversu jákvæðir þeir voru, þeir voru eiginlega vandræðalega jákvæðir. Það eina neikvæða sem þeir nefndu var hörð einangrunarstefna stjórnvalda en það má í raun segja að á fyrstu áratugunum hafi bandarískir hermenn verið hér fangar, lokaðir inni á þessari einangruðu herstöð. Þá vissu þeir vel af andstöðunni við herinn og að þeir væru ekki velkomnir. Hins vegar var náttúran það sem heillaði þá mest en kannski síður veðrið,“ sagði Dagný og hló. „Þeir áttu von á kuldanum en þeir áttu ekki von á myrkrinu og rokinu.“
Suðurnesjamenn vilja segja söguna
– Hvernig gekk að fá fólk til þess að deila sögu sinni?
„Það gekk ótrúlega vel. Suðurnesjamenn vilja segja þessa sögu, fyrir þá er hún ekkert vandamál. Ég held að mönnum leiðist líka fordómarnir sem alltaf hafa verið gagnvart vellinum og hafa í raun yfirfærst á öll Suðurnes. Það má ekki gleyma að herinn flýtti fyrir framþróun á ýmsum sviðum og færði okkur alþjóðlega strauma. Hér fæddist körfuboltinn á Íslandi og hér varð rokkið til. Áhrifin eru mikil og við nutum góðs af, svo er annarra að dæma hvort íslensk menning hafi hlotið skaða af.“
Í bókinni er að finna fjölda ljósmynda bæði í einkaeigu og frá Byggðasafni Reykjanesbæjar og víðar og sýna þær fjölbreytt mannlífið á herstöðinni á Miðnesheiði. Hægt er að kaupa bókina í forsölu Facebook-síðunni Lífið á vellinum (facebook.com/lifidavellinum) á 3.500 kr. tilboðsverði og fá hana senda heim að dyrum.
Smyglið á Vellinum var félagslega viðurkennt
Við birtum hér kafla úr bókinni Lífið á vellinum eftir Dagnýju Maggýjar þar sem sagt er frá smyglinu á vellinum sem segja má að hafi verið félagslega viðurkennd og það í raun heyrt til undantekningar ef menn smygluðu ekki.
Smyglið á vellinum
Eitt árið sló sala á Pioneer hljómflutningstækjum fyrir bíla öll sölumet í Píexinu. Það kom yfirmönnum á vellinum spánskt fyrir sjónir, því tækin sem seldust voru þrefalt fleiri en fjöldi bíla á vellinum.
Völlurinn var tollfrjálst svæði sem skapaði mikla pólitíska togstreitu og inn í landið streymdu eftirlitslausar amerískar vörur. Ekki þótti nóg að girða svæðið af og vildu menn helst girða Bjarna Ben af sem þótti ábyrgur fyrir smyglinu, óreiðunni og siðleysinu á Keflavíkurflugvelli.
Áfengi og sterkur bjór, nælonsokkar og kvenskraut, kjólar og kápur og annað það sem teljast má hæfilegt legkaup í viðskiptum við nýfermdar íslenskar stelpur. (Þjóðviljinn, 1949)
Haft var eftir sýslumanni í Gullbringu- og kjósarsýslu að ótrúlega mikið af ótolluðum vörum hafi verið fluttar ofan af Keflavíkurflugvelli. Árið 1951 var lögreglu- og tollgæslumönnum fjölgað og árið 1954 var stofnað sérstakt lögregluembætti fyrir Keflavíkurflugvöll. Yfirmaður þess var lögreglustjóri en ekki sýslumaður eða fógeti þar sem ekki var um sýslu eða kaupstað að ræða.
Fimm hlið
Fimm hlið voru á vallarsvæðinu: Aðalhlið, Grænáshlið, Patterson-hlið, Stapafellshlið og Sandgerðishlið. Leiðirnar út af vellinum voru því nokkrar og engin leið að koma alfarið í veg fyrir smygl. Hermenn sem bjuggu utan vallarins notuðust við svokallað Turner-hlið á Nikkel-svæðinu en þar var lögreglan á Keflavíkurflugvelli lengi með höfuðstöðvar sínar. Aðalhliðið var opið allan sólarhringinn, Grænáshlið til kl. 2:00 og venjulega tveir lögregluþjónar á vakt auk hermanna.
Þeir sem fóru um hliðið þurftu að gefa upplýsingar um ferðir sínar og eiga erindi, starfsmenn og sérstakir gestir voru með passa. Allir gátu átt von á því að vera stoppaðir í hliðinu og að leitað yrði í bifreiðum þeirra. Þúsundir bíla fóru í gegnum hliðin á Keflavíkurflugvelli og því ljóst að ekki var hægt að leita í þeim öllum. Þá var aðstaða ekki góð til þess að stoppa af bíla til leitar sem gat þýtt langa röð bifreiða.
Það er skiljanlegt að margir hafi freistast til þess að smygla munaðarvöru af vellinum, sérsaklega fyrstu áratugina þar sem munur á efnislegum gæðum var meiri og allt sem kom frá Ameríku framandi og spennandi. Herinn var vel birgur af ýmsu sem þótti eftirsóknarvert og jafnvel erfitt að fá niðurfrá og eftirlit ekki alltaf mikið; verkfæri, bensín og olía, hjólbarðar og jafnvel byggingavörur og fleira var allt háð skömmtunum. Einnig munaðarvara eins og áfengi og tóbak, snyrtivörur, rafmagnstæki og fatnaður.
Allt í einu sáust „miðneshænur“ eins og kalkúnninn var kallaður á jólaborðum Íslendinga en slíkt hafði ekki þekkst áður og smjörfyllti kjúklingurinn Buttercup var eftirsóttur. Svo eftirsóttur að landsfrægur tónlistarmaður lét unga dóttur sína sitja á einum frosnum í aftursætinu á meðan ekið var í gegnum hliðið. Börnin rúlluðu út úr bílunum eftir heimsókn á völlin svo marglaga voru fötin þeirra.
Girðingin
Girðingin í kringum Völlinn var annars eðlis. Satt best að segja man ég ekki til þess að nokkur maður hafi haft áhuga á að fara yfir þetta víravirki, nema tveir eða þrír marx-lenínistar árið 1973 – menn sem nú eru góðborgarar í Reykjavík og kannast hvorki við tilraunina né fyrrum skoðanir sínar. Þessi girðing var þannig séð gagnlaus alla tíð. Oft var varningi troðið undir girðinguna eða kastað yfir hana, líkt og gallonflöskum með handfangi sem innihéldu marga lítra af hvítu rommi, Tennessee-viskíi eða bandarískum 50% vodka, sem þekktist ekki á Íslandi. Stundum var bjórkössum skutlað yfir girðinguna en oftast komu menn þess háttar varningi bara út í gegnum hliðin með einföldum klækjabrögðum.
Svo virðist sem flestir þeirra sem höfðu aðstöðu til hafi smyglað vörum ofan af velli, var það frekar eftirtektarvert ef menn smygluðu ekki. Það virtist vera samfélagslega viðurkennt, sérstaklega ef smyglið var til eigin nota.
Sumir voru stórtækir í alls kyns smygli og sumir misstu vinnuna sökum slíkra brota. Aðrir voru varfærnari og reyndu að standa sína pligt þótt þeir næðu sér í gallabuxur eða hljómplötu eða slíkt smálegt. Enn aðrir, líklega mun færri, tóku aldrei neitt ófrjálsri hendi og stóðu ekki í smygli.
Það var ekki tekið hart á smygli og fáir misstu vinnuna vegna þess. Herinn leit svo á að það væri ekki þeirra hlutverk að fylgjast með því. Að þeirra mati var um eðlilega rýrnun að ræða sem gert var ráð fyrir. Hins vegar gat það haft afleiðingar ef smyglið var stórtækt og ef starfsmenn notuðu bíla í eigu varnarliðsins til athæfisins.
Urðu fljótt til ýmsar þjóðsögur um smyglið en erfitt er að sanna trúverðugleika þeirra. Eitt dæmi er sagan af manninum sem flutti reglulega hjólbörur fullar af sandi í gegnum hliðið. Lögreglan gramsaði í sandinum og klóraði sér í kollinum því ekkert fannst. Kom svo í ljós síðar að maðurinn var að smygla nýjum hjólbörum í hvert sinn.
Hér er Varnarliðsmaður í íbúð sinni, með hjól í herberginu, bækur, sjónvarp og fleira að ógleymdri viskíflösku.
Svartamarkaðsbrask
Smyglinu fylgdi svartamarkaðsbrask og reyndu sumir að selja sígarettur og áfengi af vellinum, bæði Íslendingar og bandarískir hermenn. Það var þó sjaldan stórtækt.
Maður var að selja vín alla daga. Þannig hafði maður eina til tvær flöskur úr krafsinu. Það var nóg til að hafa með í Krossinn um helgar. Ameríkanarnir komu með flöskurnar hingað upp á stöð (slökkvistöð) og svo komu Íslendingarnir og keyptu. Einu sinni var einn Ameríkaninn tekinn. Hann var búinn að kaupa um 90 flöskur einn mánuðinn og var spurður að því hvað gengi eiginlega á? Hann sagðist hafa verið með fermingarveislur og giftingu og allt hvað eina og þannig slapp hann.
Í verkfalli tollvarða voru uppgrip hjá Íslendingum en þá var ekki hægt að afgreiða sígarettur inn í landið. Menn hömuðust því á sjálfsölunum á vellinum eða fengu sígarettur eftir öðrum leiðum til að selja.
Við vorum þarna félagarnir að troða pening í sjálfsalana sem spýtti út úr sér sígarettum þegar yfirmaður í hernum kom að okkur. Okkur snarbrá en þá kinkaði hann bara kolli og sagði; „keep going.“ Svo losuðum við um loftklæðninguna í bílnum og tróðum þar inn sígarettupökkunum svo ekkert fannst við leit.
Það gat komið sér vel að þekkja löggu í hliðinu, sumum var hleypt í gegn. Eins var talið áhættuminnst að smygla í leiðinlegu veðri, því þá væru litlar líkur á því að lögreglumennirnir nenntu út úr skýlinu.
Eftir því sem leið á dvöl Bandaríkjamanna minnkaði smyglið samhliða batnandi lífskjörum Íslendinga. Bjórinn var leyfður og þá þótti það sem var amerískt frekar hallærislegt. Dregið hafði saman í muninum á milli þjóðanna, það sem áður hafði verið framandi var það ekki lengur.
Gríðarlegar byggingaframkvæmdir voru fyrstu árin á Keflavíkurflugvelli.
Suðurnesja-píparar í „plumbing“-deildinni. Þúsundir Suðurnesjamanna störfuðu hjá hernum í hálfa öld.