Líf og fjör á þemadögum Heiðarskóla
Þemadagar voru haldnir í Heiðarskóla í þessari viku og var því líf og fjör. Að sögn Steinunnar Snorradóttur, deildarstjóra í Heiðarskóla, ríkir alltaf mikil eftirvænting meðal nemenda þegar þemadagar nálgast. „Þá breytum við út frá hefðbundinni daglegri rútínu og einbeitum okkur af öllu hjarta að því þema sem við tökum fyrir. Nemendur hafa skreytt sín svæði á skemmtilegan hátt og svo var foreldrum boðið að koma og sjá afraksturinn eftir hádegi í gær. Skreytingarnar fá svo standa áfram eftir vetri, okkum öllum til mikillar gleði.“
Þemað í ár voru bækur. Nemendur 1. til 4. bekkjar hafa að undanförnu lesið bækurnar um Lottu í Skarkalagötu eftir Astrid Lindgren og skreyttu stofur sínar og ganga eftir söguþræði þeirra. Nemendur á miðstigi lásu bækur og færðu í kvikmyndabúning og þegar blaðamaður kíkti í heimsókn í skólann í dag voru tökur víða í gangi. Harry Potter þema var hjá nemendum 8. til 10. bekkjar og breyttu þau sínum rýmum í Hogwarts, galdraskólann sem Harry Potter gekk í. Nemendum var skipt í hópa og útbjó hver hópur sína heimavist í anda Hogwarts. Þau voru öll klædd í einkennisbúninga og með bindi, mismunandi að lit eftir því hvaða vist þau tilheyra.
Í gær var svo haldið íþróttamót í anda Hogwarts þar sem keppt var í íþróttinni „quiddtich“. Í kvikmyndunum um Harry Potter svífa keppendur um á kústsköftum en nemendur Heiðarskóla létu sér nægja að svífa um á ímyndaðan hátt á bandíkylfum.
Góðir gestir komu í heimsókn á þemadögum og voru það rithöfundarnir Gunnar Helgason, Arndís Þórarinsdóttir, Ævar Þór Gunnarsson, Kristjana Friðbjörnsdóttir, Steinunn Sigurðardóttir og Guðmundur Andri Thorsson sem lásu úr verkum sínum fyrir nemendur.
Nemendur 1. til 4. bekkjar skreyttu sín svæði í anda Lottu í Skarkalagötu.
Fullorðna fólkið lét ekki sitt eftir liggja.