Líf mitt fékk tilgang á ný
Melkorka Matthíasdóttir:
Ég ólst upp í Ólafsvík, litlu sjávarplássi á Snæfellsnesi, í nánd við náttúruna. Á menntaskólaárunum bjó ég í Reykjavík og svo þegar ég byrjaði í jarðfræði í háskólanum 1993 kynntist ég núverandi manninum mínum, Ingva Jóni Gunnarssyni og flutti til Keflavíkur. Við eigum saman 3 börn en eftir barneignir, nám og búsetu erlendis fluttum við í Mosfellsbæ og ég fór að kenna jarðfræði í MS 2008. Listsköpunin hefur alltaf fylgt mér í gegnum lífið og ég man ekki eftir mér öðruvísi en að vera að teikna, mála og föndra meðfram öllu sem ég tók mér fyrir hendur. Vendipunktar í lífi mínu beindu mér svo á aðrar brautir.
Í janúar 2015 missti ég systur mína úr brjóstakrabbameini. Í lok árs 2016 greindist ég svo með brjóstakrabbamein og allt árið 2017 var ég í strangri sjúkdómsmeðferð. Ég kynntist Ljósinu í mínu veikindaleyfi og þar var boðið upp á fjölbreytta þjónustu í endurhæfingu. Hluti af endurhæfingunni var í gegnum listsköpun. Málun og keramik greip mína athygli. Þar var flæðið, snertingin við jörðina og frumefni náttúrunnar. Líf mitt fékk tilgang á ný.
Í framhaldinu fór ég að endurmeta lífið. Ætlunin var að sinna listinni í ellinni en síðustu áföll kenndu mér að lifa í núinu og fylgja draumunum. Nálægðin við dauðann gerðu mig meðvitaða um að við erum hér aðeins í takmarkaðan tíma.
Ég er ánægðust með að hafa ákveðið að fylgja hjartanu því það krefst hugrekkis að kollvarpa lífinu en það er góð tilfinning að í keramikinu hefur háskólanámið mitt í jarðfræði sameinast listagyðjunni.
Varðveitt
Fátt er íslenskara en saltfiskur. Söltun er góð geymsluaðferð en söltun hindrar vöxt flestra örvera þegar saltstyrkur er kominn upp í 10%. Salthlutfall í fullverkuðum saltfiski er 17–21%. Þannig getur hann varðveist í marga mánuði. „Varðveitt“ er ílát til að salta og útvatna fisk í ísskápnum þínum. Ílátið skiptist í tvo hluta; Stórt ílát sem tekur a.m.k. þrjá lítra fyrir útvötnun en getur líka verið eldfast mót til að matreiða í; Minna ílát innan í með sigti í botni fyrir söltunarferlið. Fiskurinn missir vökvann við söltun sem rennur út um götin í sigtinu en mikilvæg er að aðskilja vökvann frá í ferlinu.