Lest Vélavina vakti mikla lukku
Félagar í Vélavinum smíðuðu lest fyrir yngstu kynslóðina og buðu upp á ferðir á Fjölskyldudögum í Vogum um síðustu helgi. „Áður leigðum við alltaf lest sem þurfti að sækja til Reykjavíkur. Við slepptum því að bjóða upp á lestarferðir á Fjölskyldudögum í fyrra en nýttum peninginn sem hefði farið í leiguna og keyptum efni til að smíða okkar eigin lest,“ segir Einar Birgisson, formaður Vélavina.
Lestin vakti mikla lukku hjá ungum lestarfarþegum. Fremsti vagninn er gömul sláttuvél en sláttubúnaðurinn á henni var ónýtur en hún samt ökufær. Vélavinir smíðuðu svo yfir hana húdd úr olíutunnu og að framan lítur hún út eins og teiknimyndapersónan Tommi togvagn. Vagnarnir eru svo gerðir úr olíutunnum sem félagarnir fengu gefins. Þeir eru svo skreyttir með ýmsum teiknimyndapersónum, eins og Spiderman, Hello Kitty og fleirum.
Félagið Vélavinir var stofnað árið 2012 og að sögn Einars samanstendur það af körlum sem allir hafa áhuga á gömlum tækjum. „Ekki endilega á bílum, heldur á öllum almennum vélbúnaði í hvaða mynd sem það nú er. Við höfum gaman af starfinu og það hefur gengið vel. Vonandi náum við að halda áfram að stækka,“ segir hann. Margir félagsmanna eiga gamla bíla, traktora og aðra gamla hluti. Flestir félaganna búa í Vogum en einnig annars staðar. Einar segir alla áhugasama velkomna á fundi félagsins sem haldnir eru á fimmtudagskvöldum klukkan 20:00 í Gamla björgunarsveitarskýlinu í Vogum.