Lesstofan gefur út umdeilda bók
Þeir Svavar Steinarr Guðmundsson og Þorsteinn Surmeli eru meðal fimm fyrrum íslenskunema sem standa fyrir útgáfu bókarinnar Angantýr sem nýlega kom út. Saman mynda fimmmenningarnir bókaútgáfuna Lesstofuna en sá hópur hyggur á útgáfu bóka sem ekki hefur farið mikið fyrir og jafnvel fallið í gleymsku í íslenskri bókmenntaumræðu.
Þeir Svavar og Þorsteinn eru báðir Keflvíkingar sem hafa verið búsettir í höfuðborginni um nokkurt skeið. Bókin er komin í allar helstu bókaverslanir en hún segir frá endurminningum Elínar Thorarensen sem átti í ástarsambandi við Jóhann Jónsson skáld snemma á síðustu öld. Bókin var afar umdeild á sínum tíma og segir sagan að einhverjir aðilar hafi reynt að hindra það að bókin kæmist í almenna sölu.
Mynd: Þorsteinn vinstra megin við skriftir og Svavar heldur um bókastaflann á miðri mynd.