Lesandi vikunnar: Finnur teiknimyndasögur í kjallara bókasafnsins
Sagnfræðingurinn Þorgils Jónsson er Lesandi vikunnar. Þorgils starfar sem tölvumaður á HSS og mælir með allir lesi bókina 1984. Í seinni tíð byrjaði hann að lesa teiknimyndasögur og hefur fundið marar góðar í kjallaranum á Bókasafni Reykjanesbæjar.
Hvaða bók ertu að lesa núna?
Fyrstu bókina í Game of Thrones, ég stefni á að klára þær allar áður en næsta sería hefst.
Hver er þín eftirlætis bók?
The Hitchhikers Guide to the Galaxy eftir Douglas Adams og Bróðir minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren.
Hver er eftirlætis höfundurinn þinn?
Terry Pratchett. Ég kynntist honum í framhaldsskóla og hef ekki hætt síðan. Leitt að þær verði ekki fleiri bækurnar eftir hann en hann dó í fyrra.
Hvernig bækur lestu helst?
Skáldsögur, vísindaskáldsögur og líka mikið af sagnfræði en aðallega 20. aldar sagnfræðibækur og ævisögur. Núna er ég einmitt að glugga í eina áhugaverða bók um Gúlagið í Sóvétríkjunum. Á seinni árum hef ég líka tekið upp á því að lesa teiknimyndasögur. Núna er ég mest að lesa Marvel en hef líka verið að lesa klassískar bækur eftir Frank Miller og Alan Moore. Ég mæli með því að gamlir „nördar“ kíki í kjallarann í Bókasafni Reykjanesbæjar en þar hef ég fundið allar teiknimyndasögur sem mig hefur langað að lesa.
Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?
Bókin 1984 eftir George Orwell. Þessi bók er skrifuð upp úr 1940 og fjallar um stóra bróður í samfélaginu. Í bókinni eru áleitnar hugmyndir og sterk framtíðarsýn um eftirlit stóra bróður. George Orwell er án efa einn mesti stílisti enskrar tungu.
Hvaða bók ættu allir að lesa?
Bróðir minn Ljónshjarta og 1984; það góða og það slæma.
Hvar finnst þér best að lesa?
Ég næ bestu einbeitingunni ef ég les seint á kvöldin uppi í rúmi eða þegar ég er í baði. Þá er alveg friður og ró og ekki einu sinni síminn sem truflar.
Hvaða bækur standa upp úr sem þú vilt mæla með?
Ég get alltaf mælt með öllum bókum eftir Terry Pratchett, það er erfitt að festast ekki í hans veröld. Líka bókum Stephen King og George Orwell, þeir eru frábærir höfundar. Af nýjum íslenskum bókum fannst mér Öræfi eftir Ófeig Sigurðsson alveg frábær. Þórbergur Þórðarson er líka alltaf klassískur en ég var að ljúka við Bréf til Láru og Sálminn um blómið. Mamma las Sálminn um blómið fyrir mig þegar ég var 5 ára gamall og ég hafði ekki lesið hana síðan. Sagan stenst alveg tímans tönn því við kynnumst því hvernig unga fólkið uppgötvar heiminn og hvernig gamla fólkið uppgötvar heiminn í gegnum börnin.
Við þökkum Þorgils kærlega fyrir og minnum á heimasíðu safnsins þar sem hægt er að mæla með Lesanda vikunnar.