Lengri skóladagur og lengra skólaár en versnandi árangur
Hjálpar börnum og fullorðnum með lesblindu. Góð lestrarkunnátta gríðarlega mikilvæg og grunnurinn að frekara námi í framtíðinni.
„Máttur endurtekningarinnar er mjög mikill og ég vil meina að á allra fyrstu skólaárunum eigi að leggja megináherslu á lesturinn og varðandi stærðfræðina þá þurfa nemendur að ná færni í reikningsaðgerðunum áður en þau takast á við lesdæmi nema bara munnlega, endurtaka slíkt aftur og aftur, þannig öðlast þau færni í þessum lykilgreinum sem er í raun undirstaða alls náms“ segir Bjarnfríður Jónsdóttir, fyrrum kennari, sérkennari og einn eigenda Lexometrica ehf.
Bjarnfríður er fædd og uppalin í Keflavík og hóf kennsluferilinn þar. „Ég fór í Kennaraskóla Íslands árið 1964, lauk þar námi sem almennur kennari 1968 og byrjaði kennsluferilinn í Barnaskóla Keflavíkur sem nú heitir Myllubakkaskóli. Við fjölskyldan fluttum svo til Grindavíkur árið 1973 og ég kenndi þar alla mína tíð. Var í hefðbundinni bekkjarkennslu fyrstu árin en svo var það í kringum 1987 sem starfsmaður Fræðsluskrifstofu Reykjaness leitaði til mín og spurði mig hvort ég hefði áhuga á að bæta við mig námi í sérkennslufræðum. Af hverju hún leitaði til mín veit ég ekki, mig grunar að Gunnlaugur Dan Ólafsson sem þá var skólastjóri Grunnskóla Grindavíkur, hafi séð eitthvað í mér. Ég ákvað að láta slag standa, tók námið samhliða almennri kennslu og útskrifaðist árið 1990. Fljótlega eftir útskrift bauðst mér að fara til Noregs ásamt fleiri sérkennurum þar sem við kynntum okkur greinandi próf en fyrir þá sem ekki vita, þá eru slík próf til að greina ýmsa erfiðleika í námi. Í kjölfarið þýddum við og stöðluðum Aston Index, enskt greiningarpróf sem ætlað er til athugunar og mats á lestrar-, skriftar- og málörðugleikum barna. Þetta próf notaði ég til ársins 2005, þar til ég kynntist lestrargreiningarforritinu LOGOS.“
Ekki að leggja í helgan stein 75 ára
Bjarnfríður fór ásamt þremur íslenskum sérkennurum til Svíþjóðar á samnorræna ráðstefnu um lesblindu/dyslexíu sem leiddi til þess að Lexometrica og Logosprófið varð til á Íslandi „Þetta var 800 manna ráðstefna og við Guðbjörg Ingimundardóttir, Guðlaug Snorradóttir og Gyða M. Arnmundsdóttir lentum allar á fyrirlestri sem heillaði okkur og leiddi til þess að Lexometrica ehf. og Logosprófið varð til á Íslandi. Það leið ekki á löngu þar til við höfðum samband við höfund prófsins, prófessor Torleif Höien og óskuðum eftir leyfi til að nota þetta próf hér á landi. Hann tók okkur vel og gaf okkur tvö ár til að koma þessu á koppinn en við þurftum að þýða prófið og skipanir í forritinu yfir á íslensku, staðla það á íslenskum nemendum og skrifa handbók. Þetta var mikil vinna og við rétt náðum að koma þessu út innan þessarra tveggja ára og verkefnið hófst í febrúar 2008 þegar við héldum fyrsta námskeiðið fyrir íslenska sérkennara. Við höfum varla stoppað síðan þá en í dag er Logos nánast komið inn í alla grunnskóla á Íslandi. Ég hætti eiginlegri kennslu árið 2008 og færði mig yfir á skólaskrifstofu Grindavíkur og var þar til ársins 2016 samhliða því að reka Lexometrica ásamt meðeigendum mínum. Ég verð 75 ára gömul á þessu ári og sé ekki fyrir mér að leggjast í helgan stein alveg á næstunni. Ég starfa að mestu leyti sjálfstætt í dag. Vinnan felst í að halda námskeið á vegum Lexometrica fyrir sérkennara sem fá að því loknu, réttindi til að nota Logosforritið til greiningar á lestrarerfiðleikum. Eins hef ég verið að greina og skima fyrir lesblindu og öðrum lestrarörðugleikum í nokkrum skólum á höfuðborgarsvæðinu. Þá hef ég tekið að mér greiningar hjá Keili á Ásbrú en þar eru meðal annarra fullorðnir einstaklingar sestir aftur á skólabekk eftir að hafa hugsanlega flosnað upp úr námi vegna lesblindu,” segir Bjarnfríður.
Góð lestrarkunnátta gríðarlega mikilvæg
Bjarnfríður man tímana tvenna í kennslunni og er ekki viss um að við séum á réttri leið. „Þegar ég byrjaði að kenna var skólinn tvísetinn, eldri nemendur voru fyrir hádegi í skólanum og yngri nemendur eftir hádegi. Skólaárið þá var átta mánuðir. Í dag hefur skóladagurinn lengst, skólaárið orðið tíu mánuðir en á sama tíma virðist árangur í lestri fara versnandi sem er sorglegt. Auðvitað spilar mjög margt inn í, breytt samfélag með öllu sínu áreiti, símum og tölvum, allir eru mjög uppteknir, ekki síst foreldrar. Margir kennarar kvarta líka yfir því að hafa ekki tíma til þess að hlusta á lestur nemenda sinna daglega. Svo margt sé komið inn í námskrána að ekki gefst tími til þess. Þegar ég fyrir öllum þessum árum var við kennslu voru allir með sömu bókina, hver tók við af öðrum og áttu að lesa hátt og skýrt það sem þeim hafði verið sett fyrir að lesa heima. Þá gafst líka tækifæri til að ræða söguþráðinn. Kennslan í dag er orðin einstaklingsmiðaðri sem er að sjálfsögðu gott en það sem hefur breyst við það er að hver og einn er með sína bók og les fyrir kennarann. Hann les þá í hálfum hljóðum til þess að trufla ekki hina í skólastofunni. Ég sakna þessa fyrra fyrirkomulags sem ég held að hafi skilað sér í góðum lestri en auðvitað má finna þar galla eins og í öllu öðru. Í mínum huga er góð lestrarkunnátta gríðarlega mikilvæg og grunnurinn að frekara námi í framtíðinni. Það má líka ekki gleyma því að í stærðfræðinni eru dæmin að stórum hluta orðin orðadæmi og það gefur auga leið að ef lesskilningur er ekki góður mun viðkomandi ekki ganga vel að reikna slík dæmi.
Eins og ég sagði þá hef ég verið að skima inni í skólum í nokkur ár og sé svona nokkurn veginn hvernig þróunin er. Ég sé svo ekki verður um villst að færri og færri börn ná viðunandi árangri í lestri ár frá ári. Ég er kannski orðin gömul og haldin fortíðarþrá en ég held við ættum að færa okkur að einhverju leyti aftur til baka, þetta er ekki alveg að virka eins og við erum að gera hlutina í dag.“
Misskilningur varðandi hraðlestur
Misskilnings virðist gæta hjá mörgum varðandi aukna áherslu á hraðlestur barna. „Við getum ekki útilokað leshraðann þegar við tölum um læsi. Hraðinn er fyrst og fremst mælikvarði á sjálfvirknina í lestrinum. Eftir því sem viðkomandi nær meira valdi á lestrinum og les hraðar, þeim mun sjálfvirkari er lesturinn orðinn og þá auðveldara að einbeita sér að innihaldi textans. Skilgreiningin á góðri lestrarfærni er í raun að geta lesið hratt og rétt, með réttu hljómfalli og ef lesskilningurinn er líka góður, þá er viðkomandi orðinn læs. Ég held við ættum að staldra við og íhuga hvort við ættum að taka að einhverju leyti upp fyrri kennsluhætti. Ég vil meina að á allra fyrstu skólaárunum eigi að leggja megináherslu á lesturinn og af því að þú spyrð um stærðfræðina þá þurfa þau jafnframt að ná færni í reikningsaðgerðunum áður en þau takast á við lesdæmi nema bara munnlega, endurtaka slíkt aftur og aftur, þannig öðlast þau færni í þessum lykilgreinum sem er í raun undirstaða alls náms,“ sagði Bjarnfríður að lokum.