Leitað að jólasveininum á Reykjanesi
Félagar úr gönguhópnum Ferlir fóru í sína árlegu jólagönguferð 11. Desember sl. Þar sem leitað var að jólasveininum á Reykjanesskaganum. Í stórskemmtilegum pistli sem birtist á heimasíðu hópsins um ferðina er þeirri spurningu velt fyrir sér hvort jólasveinarnir búi í undirheimum á Reykjanesi, þ.e. hellum.
„Fremstu, og jafnframt hæfustu, rannsakarar sem til eru, voru settir í það verkefni að reyna að staðsetja dvalarstað jólasveinanna. Þeir skoðuðu öll hugsanleg fjöll, sem til greina komu, en niðurstaðan voru vonbrigði. Fullyrt var að hvorki jólasveinar né önnur sambærileg fyrirbæri gætu búið í fjöllum, hvað þá á fjöllum. En hvar þá?
Rannsakararnir komust að því að undirheimarnir væru einna líklegastir. Jólasveinarnir virtust alltaf eiga nóg af gjafadóti, þeir voru hvergi á launaskrá, virtust ekki hafa neinar tekjur, sáust aldrei milli 6. janúar og 12. dag desembermánaðar og notuðu ekki síma, en þurftu að búa við tiltölulegar mildar aðstæður og auðvelt væri um aðdrætti. Auðvitað þyrftu jólasveinar ýmislegt smálegt af og til allt árið auk þess þeir þurftu að geta dregið sér allt efni í gjafir og því var alveg nauðsynlegt að nærliggandi íbúar væru sammála sem einn maður að þegja um dvalarstaðinn. En hvar voru íbúar, sem gátu þagað yfir leyndarmáli?,“ segir m.a. í pistlinum sem hægt er að lesa með því að smella hér.
Myndir: Jólasveinninn lét aðeins á sér bera í ferðinni. Ljósmyndir af vefsíðunni ferlir.is.