Leita að Matchbox-sérfræðingi
„Uppsetningin á safninu hefur gengið mjög vel og við höfum fundið fyrir miklum velvilja fólks,“ segir hannyrða- og listakonan Helga Ingólfsdóttir sem þessa dagana vinnur að uppsetningu á leikfangasafni í Grófinni í Reykjanesbæ. Safnið verður formlega opnað á Ljósanótt.
Helga hefur í gegnum tíðina safnað og búið til leikföng sem senn fá fastan samastað. Meðal leikfanganna sem verða á safninu eru Matchbox bílar og óskar Helga eftir manneskju með þekkingu á þeim til að aðstoða við uppsetninguna. „Ég fékk sams konar aðstoð með að stilla upp Star Wars leikföngunum, enda hef ég litla þekkingu á því hverjir eru vinir og hverjir óvinir þar,“ segir hún og hlær. Áhugafólk um Matchbox-bíla er hvatt til að hafa samband við Helgu í síma 863-7089.
Nánar verður fjallað um leikfangasafnið í Víkurfréttum í næstu viku.