Leikskólinn Gefnarborg tekur nýja deild í notkun
Leikskólinn Gefnarborg í Garði er nú orðinn fjögurra deilda leikskóli og er fjöldi barna 88. Sr. Björn Sveinn Björnsson, sóknarprestur í Garði, blessaði húsnæðið og við það tækifæri sungu leikskólabörnin nokkur lög fyrir viðstadda og buðu góðan dag á 10 tungumálum og táknmáli.
Það er engin biðlisti á leikskólann, þ.e. öll börn sem verða og eru orðin tveggja ára á árinu 2008 fá leikskólapláss. Húsnæði skólans er einkar glæsilegt og aðstaða til allra starfa mjög góð.
Leikskólinn var byggður af Kvenfélaginu Gefn og tók til starfa 10. júní 1971 og hefur starfað í 37 ár.
Kvenfélagið Gefn rak leikskólann til áramóta 1985-1986. Þá keypti Sveitarfélagið hann og rak til 1.ágúst 1986 en síðan þá hefur Gefnarborg verið í einkarekstri.
Deildirnar í skólanum heita Kátakot, Sælukot, Vinakot og nýja deildin heitir Hálsakot. Leikskólinn starfar eftir Aðalnámskrá leikskóla og leggur áherslu á hugmyndafræði Howards Gardner.
Fleiri myndir frá athöfninni verða birtar á ljósmyndavef VF.
Myndir- VF/IngaSæm