Leikskólakennari er líka karlastarf
„Börn þurfa fyrirmyndir af báðum kynjum“
Sandgerðingurinn Arnar Helgason starfar á leikskólanum Sólborg í Sandgerði. Þegar hann þurfti að minnka við sig vinnu vegna heilsubrests ákvað hann að byrja að vinna á leikskóla og segist elska vinnuna sína. „Ég var til í að prófa allt svo ég þyrfti ekki að hanga heima. Þetta er svo fjölbreytt og gefandi, það kom mér á óvart,“ segir Arnar, sem hefur nú starfað á leikskólanum í eitt ár.
Ásamt því að starfa sem leiðbeinandi á leikskóla er Arnar meðlimur í Leikfélagi Keflavíkur, hefur áhuga á smíðum og viðgerðum, náttúrunni og að skapa minningar með börnunum sínum.
„Ég hef ekki upplifað fordóma í þessu starfi en fyrrum samstarfsfélagar hafa orðið pínulítið hissa. Ég tel að konur séu í meirihluta í þessu starfi vegna sögu okkar, það er að konur eigi að hugsa um börnin og svoleiðis kjaftæði, en það er sem betur fer að breytast.“
Talsvert fleiri konur starfa sem leikskólakennarar en Arnar mælir hiklaust með þessu starfi fyrir karla.
„Það fólk sem telur karlmenn ekki hæfa í þetta starf veit bara ekki betur. En hugarfar fólks hefur breyst mikið undanfarin ár varðandi þetta. Ég finn bara fyrir jákvæðni frá starfsfólki og foreldrum. Börn þurfa fyrirmyndir af báðum kynjum og því fleiri, því betra.“