Leikskólabörn á Hornafirði fengu gjöf úr Sandgerði
Öll leikskólabörn á Hornafirði fengu í vikunni bókagjöf úr Sandgerði, en hvert barn fékk eintak af báðum bókunum um grallarana Glingló, Dabba og Rex. Selma Hrönn Maríudóttir höfundur og útgefandi bókanna gaf 260 bækur ásamt Matreiðsluklúbbnum Freistingu, einum af velunnurum grallaranna sem styrkti gjöfina.
Hugmyndin að bókagjöfinni kviknaði í tengslum við sýninguna "Þetta vilja börnin sjá" sem er nú orðin farandsýning á myndskreytingum íslenskra barnabóka. Sýning þessi hefur verið haldin í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi í Reykjavík síðan árið 2002. Menningarmiðstöðin á Hornafirði falaðist svo eftir því á síðasta ári að sýningin yrði send út á land og var hún fyrst sett upp í Nýheimum á Hornafirði. Í kjölfarið hafa margir sýnt sýningunni áhuga og hefur hún m.a. verið sett upp í gamla sjúkrahúsinu á Ísafirði, á Amtsbókasafninu á Akureyri, í Safnahúsi Borgarfjarðar og í Sögusetrinu á Hvolsvelli.
„Okkur aðstandendum Grallaranna finnst þetta frábært framtak hjá Menningarmiðstöð Hornafjarðar og fannst vel við hæfi að gefa leikskólabörnunum á Hornafirði eintak af Grallarasögunum. Teikningar eftir Brynhildi Jenný Bjarnadóttur úr báðum bókunum hafa verið á sýningunum í Nýheimum. Starfsmenn Menningarmiðstöðvarinnar tóku að sér að fara í leikskólana og afhenda bækurnar fyrir okkur og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.
Við þökkum Menningarmiðstöð Hornafjarðar og Matreiðslubklúbbnum Freistingu kærlega fyrir framlag sitt við að vekja athygli á íslensku barnaefni“, segir í tilkynningu frá Gröllurunum úr Sandgerði.
Mynd: Menningarmiðstöð Hornafjarðar