Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Leiklistarnámskeið fyrir börn 9 til 11 ára
Þriðjudagur 22. október 2019 kl. 10:07

Leiklistarnámskeið fyrir börn 9 til 11 ára

Núna eru þær hvorki í stjórn Leikfélags Keflavíkur eða að taka þátt í væntanlegri leiksýningu félagsins, Fló á skinni, sem frumsýnd verður eftir rétt tæpar tvær vikur en þær geta samt ekki látið leiklistina vera. Þessar stöllur elska leiklist og einnig að hjálpa öðrum að upplifa góðar hliðar í sjálfum sér með verkfærum leiklistar. Þetta eru þær Guðný Kristjánsdóttir og Halla Karen Guðjónsdóttir sem langar að bjóða upp á leiklistarnámskeið fyrir börn í lok október.

Börn eru móttækileg fyrir tónlist

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við fengum styrk frá menningarráði Reykjanesbæjar sem við viljum nýta í að bjóða börnum að taka þátt sem eru á aldrinum 9 - 11 ára. Þegar við vorum að ákveða aldurshóp þátttakenda þá sáum við það að Unglingadeild Leikfélags Keflavíkur er mjög virk en þau sem eru aðeins yngri hafa ekki fengið tækifæri lengi til að vera með á námskeiði. Börn á þessum aldri eru svo móttækileg og því gott að vinna með þeim og styrkja enn frekar jákvæða sjálfsmynd þeirra áður en þau verða unglingar,“ segir Guðný.

Börnin blómstra

Blaðakonu lék forvitni á að hvaðan þær vinkonur fá kraftinn til að vinna með leiklist ár eftir ár.

„Það er nú létt að svara því,“ segir Guðný og bætir við með sannfæringu; „Það er svo ótrúlega skemmtilegt og gefandi að taka þátt í leiklist. Og að miðla leiklist til barna og unglinga, að sjá þau blómstra er dásamlegt. Uppskera mín er þegar ég sé þau standa örugg á sviði eftir að leiklistin hefur hjálpað þeim að fá útrás en það er það sem leiklist hjálpar þeim með, að fá útrás fyrir tilfinningar sínar í gegnum leik. Þau verða glaðari og léttari, í meira jafnvægi. Þau upplifa að þau eru fín eins og þau eru. Ég er einnig að kenna skapandi námsgrein í Heiðarskóla sem við köllum Sviðslistir og þar sé ég hvað leiklist gerir öllum gott. Mér finnst börn sem ekki kynnast leiklist fara á mis við svo margt sem gæti eflt þau persónulega. Ég hef séð afrakstur svo margra nemenda í skólanum hjá okkur, séð hvernig þau lifna við á jákvæðan hátt og verða sjálfsöruggari með sig. Leiklist skapar vellíðan.“

Leiklist fyrir allskonar krakka

„Þegar ég var krakki sat ég á bekknum í körfubolta því ég var svo grútléleg. Mig langaði að vera góð en var það ekki. Þetta var samt það sem allir gerðu, allir voru að æfa einhverja íþrótt og ég vildi vera með en var samt aldrei þessi íþróttatýpa. Ég fann mig ekki fyrr en ég fór að dútla í leiklist. Það er líka fyrir þessa krakka sem mig langar að miðla leiklistinni því það eru til fleiri krakkar eins og ég var. Auðvitað eru alls konar krakkar sem langar að vera með í leiklist en ég tengi einnig við þessa sem finnst þau ekki passa neins staðar. Leiklist getur hjálpað þér að skapa og vinna úr tilfinningum þínum. Allir hafa gott af leiklist, ekki bara börn og unglingar. Í leiklist færðu að vera akkúrat sá sem þú ert. Allir eru velkomnir og unnið er með styrkleika hvers og eins. Sumir krakkar vilja vera í leiklist eða dansi, aðrir í íþróttum og svo eru til krakkar sem vilja vera með í öllu þessu og fá útrás,“ segir Halla Karen.

Vanar að vinna með börnum

Þær eru líflegar báðar tvær og skemmtilegar, Guðný og Halla Karen og hafa oft unnið saman í leiklist, hvernig gengur samstarfið?

„Við tvær vinnum svo vel saman, leiklist er ástríða hjá okkur báðum og við erum oft að hugsa þetta sama, fáum sömu hugmyndir um hvað við getum gert næst. Börn, kennsla og leiklist er það sem tengir okkur og við erum samstíga í þessu,“ segir Guðný og horfir brosandi til Höllu Karenar sem toppar þessi ummæli hjá Guðnýju og segir; „Við eigum líka svo dásamlega eiginmenn, það verður einnig að koma fram, því þeir styðja okkur í leiklistinni. Það er mjög gott að vita af þeim á hliðarlínunni þegar við erum að vinna í einhverju skapandi verkefni eins og þessu.“

Hvers konar leiklistarnámskeið er framundan?

„Við ætlum að einblína á leiklist og söng, tónlist og dans, sem eflir sjálfstyrkingu og jákvæð samskipti. Yfirleitt myndast góð vinátta eftir svona námskeið hjá börnunum. Leiklistarnámskeið veitir þeim ákveðna þjálfun til þess að taka þátt í leiksýningu seinna ef þau vilja það, þetta er einskonar stökkpallur. Krakkar af öllum Suðurnesjum eru velkomin að taka þátt“ segir Guðný.

„Eftir sex vikna námskeið viljum við enda með lítilli leiksýningu fyrir aðstandendur. Það er alltaf mjög skemmtilegt. Samstarf okkar við Leikfélag Keflavíkur er mjög gott og því eigum við aðgang að búningasafni félagsins sem krökkunum finnst mjög spennandi að róta í og klæða sig upp. Við lítum svo á að við erum að ala upp leikhúsunnendur og jafnvel leikara framtíðarinnar, það er aldrei að vita hvaða hæfileikar leynast í þátttakendum,“ segir Halla Karen og þær vinkonur brosa báðar við þessum lokaorðum, greinilega fullar eftirvæntingar að byrja nýtt námskeið með krökkum sem langar að vera með.