Leikfléttur í Duushúsum
Sýning Kristínar Rúnarsdóttur.
Sýning Kristínar Rúnarsdóttur „Leikfléttur“ verður opnuð í Listasafni Reykjanesbæjar fimmtudaginn 4. september kl. 18:00. Sýningin er liður í dagskrá Ljósanætur 2014.
Kristín Rúnarsdóttir fæddist í Keflavík árið 1984. Hún stundaði nám við myndlistardeild Listaháskóla Íslands og hélt síðan til framhaldsnáms í Kunst- og Designhøgskolen i Bergen, Noregi. Kristín hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga á Íslandi og í Noregi.
Í innsetningu sinni í Listasafni Reykjanesbæjar vinnur Kristín með ýmis efni, svo sem límbönd sem hún notar til að teikna með á gólfið, pappír, málningu, við og lakk. Margt í verkum hennar minnir á íþróttaleikvanga og leiki. Í texta Markúsar Þórs Andréssonar í sýningarskrá segir: ,,Manni koma til hugar leikir og vill helst taka þátt, eru þetta ekki stærðar Mikado pinnar innan um lokkandi klifurgrindur?” Að auki skrifar Markús um vinnuaðferðir Kristínar og segir: „Á vinnustofunni er listakonan lúsiðin; skissar, gerir uppkast og módel, þaulvinnur verk sín með reglustikum og skurðarhnífum. Óteljandi skipulögð handtök sem gefa til kynna að hún viti nákvæmlega hvað hún hefur fyrir stafni. En óvissa ríkir allt fram á ögurstund og þar liggur spenna og eftirvænting sem áhorfendur skynja og auka á ánægjuna við sýningarupplifunina.”
Sýningin stendur til 26. októbe, sýningarsalur Listasafns Reykjanesbæjar er í Duushúsum.
Safnið er opið virka daga kl. 12.00-17.00 og um helgar kl. 13.00-17.00.
Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.