Leikfélagið setur upp Fló á skinni - leiklistarnámskeið í boði
Leikfélag Keflavíkur hefur ekki svikið neinn síðustu misseri og sett upp hverja sýninguna á fætur annarri sem hefur slegið öll fyrri aðsóknarmet. Því er ekki við öðru að að búast en að næsta verk verði engin undantekning en ákveðið hefur verið að setja upp skemmtilega farsann Fló á skinni sem síðast var settur upp í Borgarleikhúsinu árið 2008.
Leikstjóri er enginn annar en Karl Ágúst Úlfsson sem flestir þekkja úr Spaugstofunni.
Leiklistarnámskeið, eða svokallaðar leikprufur fyrir þá sem hafa áhuga á að vera með í sýningunni, verður haldið dagana 26. og 27. ágúst frá kl. 19:00-23:00 í Frumleikhúsinu, Vesturbraut 17. Samlestur verður svo haldin í kjölfar námskeiðsins.
Leiðbeinandi námskeiðsins er Ágústa Skúladóttir, leikstjóri og leiklistarkennari, en hún hefur afgripamikla reynslu af vinnu með áhuga- og atvinnufólki og hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir störf sín í leikhúsi.
Námskeiðinu er ætlað að reyna á þátttakendur, þjálfa þá í leik á sviði, gefa þeim tækifæri til að sýna hvað í þeim býr og kynnast, en fyrst og fremst á það að vera skemmtilegt og uppbyggilegt fyrir alla.
Allir áhugasamir, 18 ára og eldri (fædd 2001), eru hvattir til þess að mæta, sama hvort þið viljið leika, farða, smíða, sauma eða gera eitthvað annað.
Þátttakendur eru beðnir um að koma í fötum sem gott er að hreyfa sig í og hafa með sér þæginlega skó.