Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Leikfélagið frumsýnir nýtt verk eftir Breiðbandsmenn
Miðvikudagur 27. febrúar 2008 kl. 10:53

Leikfélagið frumsýnir nýtt verk eftir Breiðbandsmenn

Föstudaginn 7. mars mun ný revía verða frumsýnd í Frumleikhúsinu, Vesturbraut 17. Verkið hefur enn sem komið er vinnuheitið Bærinn breiðir úr sér.

Höfundar eru sem fyrr segir Breiðbandssnillingarnir Ómar Ólafsson, Magnús Sigurðsson og Rúnar Hannah. Leikstjóri er hin landsþekkta grínleikkona Helga Braga Jónsdóttir og tónlistarstjóri er Júlíus Guðmundsson.

Tekið er á mönnum og málefnum líðandi stundar í þessu verki og ættu flestir að kannast við einhverjar af þeim fjölmörgu persónum sem teknar eru fyrir. Tónlistin spilar einnig stórt hlutverk eins og venja er í uppsetningu sem þessari en leikarar telja um þrjátíu manns á ýmsum aldri.

Undanfarnar vikur hafa farið fram strangar æfingar í leik, söng og dansi en danshöfundur er Josy Zareen sem er þekktur magadansari. Að sögn aðstoðarleikstjórans, Guðnýjar Kristjánsdóttur, sem jafnframt fer með hlutverk þekktra persóna héðan úr bæjarfélaginu og öðrum landshlutum, þá er þetta ein fyndnasta revían sem sett hefur verið á svið að hennar mati.

„Það er tekið á málefnum dagsins í dag á skemmtilegan hátt og lögin eru frábær sem og textarnir enda ekki við öðru að búast þegar Breiðbandið á í hlut. Þá skemmir ekki að hafa leikstjóra eins og Helgu Brögu sem er bæði frábær leikstjóri með mikla reynslu og líka svo skemmtilegur karakter, algjör perla. Æfingarnar hafa verið langar og strangar en nú líður að frumsýningu og hlökkum við til að sjá  Suðurnesjamenn sem og aðra íbúa þessa lands flykkjast í Frumleikhúsið og sjá þetta meistaraverk, Bærinn breiðir úr sér.”


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024