Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Leikfélag Keflavíkur frumsýnir nýja revíu í Frumleikhúsinu
Miðvikudagur 16. mars 2011 kl. 09:12

Leikfélag Keflavíkur frumsýnir nýja revíu í Frumleikhúsinu

Föstudaginn 18. mars frumsýnir Leikfélag Keflavíkur revíuna BÆRINN BRÆÐIR ÚR SÉR. Höfundar eru meðlimir Breiðbandsins ásamt leikfélagsdrengjunum Arnari Inga og Gustav Helga. Leikstjóri er Helga Braga Jónsdóttir og er þetta í þriðja sinn sem hún setur verk á svið með félaginu. Æfingar hafa staðið yfir síðan í janúar og er allt að smella saman.


Í fyrra ákvað Leikfélag Keflavíkur að ráðast í skrif á revíu þar sem ansi mikið hefur gerst í sveitarfélaginu og því af nægu að taka. Haft var samband við meðlimi Breiðbandsins um að taka þátt í skrifum en þeir skrifuðu einnig revíuna sem sýnd var fyrir fjórum árum síðan. Leikfélagsdrengirnir og stjórnarmeðlimir félagsins þeir Arnar Ingi og Gustav Helgi fengu að vera með enda kom í ljós að þar voru á ferðinni öflugir, framtíðarhöfundar.

Áður hafði Ómar heitinn Jóhannsson skrifað revíur félagsins og má segja að hann hafi með skrifum sínum komið revíuæðinu á kortið og í minningu hans munu þær fá að lifa áfram enda alltaf afar vel sóttar af bæjarbúum. Frá upphafi kom ekki annað til greina en að fá grínleikkonuna Helgu Brögu Jónsdóttur sem leikstýru enda þekkir hún vel til eftir að hafa sett tvær af vinsælustu revíum félagsins á svið. Samstarfið hefur gengið afar vel og leikarahópurinn þéttur og öflugur undir hennar stjórn. Þá sér magadansmærin Josy Zareen sem á og rekur magadansskóla í Reykjavík um alla dansa og dansþjálfun. 2. sýning verður sunnudaginn 20. mars kl. 20.00. Hægt er að nálgast allar nánari upplýsingar um sýningar á lk.is og í síma 421 2540.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024