Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Fimmtudagur 28. september 2000 kl. 14:39

Leikfélag Keflavíkur á fullri ferð inn í veturinn

Eins og áður hefur komið fram hefur Leikfélag Keflavíkur hafið vetrarstarf sitt. Guðjón Sigvaldason hefur verið ráðinn leikstjóri og hans fyrsta verk var að halda leiklistarnámskeið fyrir þau sem hafa áhuga á að vera með í haustverkefni leikfélagsins. Þátttakan á námskeiðið fór fram úr björtustu vonum leikfélaga því að á fimmta tug ungmenna á aldrinum 12 ára til 28 ára mættu. Námskeiðið hófst laugardaginn 16. september en lauk laugardaginn 23. september. Þegar Víkurfréttir kíktu í Frumleikhúsið voru krakkarnir út um allt hús í litlum hópum að vinna að næsta verkefni. Þau höfðu búið sér til ,,karaktera“ sem þau léku allt kvöldið og voru að búa til stutt leikrit sem þau áttu að sýna fyrir hin á námskeiðinu. Þarna voru einhentur gullsmiður, indverskur rútubílstjóri, leikmunafræðingur og matreiðslukennari sem kunni ekki að laga kaffi svo eitthvað sé nefnt. Það var greinilegt að allir skemmtu sér mjög vel og tóku virkan þátt í öllu sem fyrir var lagt. Að lokinni hverri sýningu fengu hin að koma með gagnrýni sem nýttist ekki bara þeim sem höfðu verið að leika heldur einnig þeim sem áttu eftir að koma fram. Að sögn Guðjóns leikstjóra er hann að vinna með tjáningu, fá krakkana til að opna sig, vinna með öðrum í kringumstæðum sem þau mundu annars ekki gera. ,,Það sem þau fá út úr námskeiðinu er að þau fá meira öryggi til að koma fram og aukið sjálfstraust.“ Guðjón hefur starfað sem leikstjóri í 13 ár auk þess að vera með námskeið út um allt land sérstaklega fyrir börn og unglinga. ,,Þetta er óvenju mikill fjöldi og mikill áhugi hjá krökkunum.“ Stjórnarmaður í LK sagði það ánægjulegt hve margir hefðu komið á námskeiðið og nú er verið að finna leikrit sem passar fyrir þennan stóra hóp því allir sem vilja fá að vera með að leika en það er samt ljóst að það er ekkert leikrit með 50 aðalhlutverkum. Ef það eru einhverjir sem vilja ekki leika en samt vera með þá er nóg af störfum sem þarf að inna af hendi svo sýning komist á svið. Leikfélag Keflavíkur þarf ekki að kvíða framtíðinni með allan þennan fjölda af upprennandi leikurum innanborðs. Ekki verður gefið strax gefið upp hvaða leikrit verður frumsýnt í nóvemberbyrjun en það eitt sagt að það á eftir að koma skemmtilega á óvart.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024