Leiðsögumenn Reykjaness: Ýmis verkefni framundan
Leiðsögumenn Reykjaness eru nú að búa sig undir komandi sumarvertíð. Fyrir utan að bjóða upp á ferðir með leiðsögn verður boðið upp á sérstakar fræðsluferðir í tengslum við bæjarhátíðir Suðurnesjamanna. Þá verður félagið aðili að stóru klasaverkefni á vegum Iðntæknistofnunar sem stuðlar að auknu samstarfi fyrirtækja í ferðaþjónustu.
Yfir 40 fyrirtæki taka þátt í verkefninu. Í tengslum við það ætla Leiðsögumenn Reykjaness markvisst að hrinda af stað ýmsum verkefnum næstu tvö árin, sem mun útvíkka starf félagsins talsvert, að sögn Rannveigar Garðarsdóttur, framkvæmdastjóra félagsins.
Á meðal verkefna síðasta árs var vinsæl röð gönguferða undir heitinu Af stað á Reykjanesið. Félagið heldur úti vefsíðunni www.reykjanesguide.is þar sem finna má upplýsingar um félagið og margvíslegan fróðleik um starfssvæði þess, þ.e. Reykjanesið.
Leiðsögumenn Reykjaness er sjálfseignarstofnun sem stofnuð var fyrir þremur árum af nýútskrifuðum svæðisleiðsögumönnum um Reykjanes. Tilgangur félagsins er m.a. að stuðla að aukinni kynningu á svæðinu og efla jákvæða ímynd þess sem ferðamannastaðar.
Mynd: Göngufólk á Reykjanesi.