Laufabrauð, kökubasar og ljósatendrun í Vogum
– Mannlífið blómstrar í Sveitarfélaginu Vogum
	Á laugardag stendur foreldrafélag Stóru-Vogaskóla fyrir laufabrauðsbakstri fyrir nemendur og fjölskyldur þeirra. Eldri borgarar eru sérstaklega boðnir velkomnir.
	
	Á sunnudag verður Kvenfélagið Fjóla með hinn árlega kökubasar sinn í Iðndal 2, sem hefst kl. 13:00. Þeir sem vilja sleppa við jólabaksturinn og styrkja um leið öflugt og gott starf kvenfélagsins ættu endilega að líta við.
	
	Ljósin verða tendruð á jólatrénu í Aragerði kl. 17 á sunnudag. Sóknarpresturinn flytur hugvekju og kirkjukórinn syngur nokkur lög. Hópur nemenda úr 1. bekk Stóru-Vogaskóla syngur einnig nokkur lög, og nemendur 10. bekkjar verða með heitt súkkulaði og annað góðgæti til sölu til styrktar ferðasjóði sínum.


 
	
				


 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				