LÁTA ALLT FLAKKA!
Stæltir stóðhestar Leikfélags Keflavíkur á æfingu í fyrrakvöld. Strákarnir láta allt flakka í sýningunni og þessi ljósmynd segir meira en mörg orð um hvað gerist í sýningunni. Stórátak fyrir alla leikara að leika naktir! Stæltir stóðhestar er hins vegar ekki ætluð börnum.Leikfélag Keflavíkur frumsýnir á morgun verkið Stæltir stóðhestar sem er lausleg þýðing og staðfæring þeirra Júlíusar Guðmundssonar og Ómars Ólafssonar á söngleiknum Lady’s night eftir Anthony Mcarten og Stephen Sinclair. Eins og nafnið ber með sér er hér engin lognmolla á ferðinni heldur hressileg sýning þar sem leikendur fara fram á ystu nöf. Alls taka 14 leikendur þátt í sýningunni en stærstu hlutverkin eru í höndum sex pilta sem mynda vinahóp í kröggum. Margir þeirra eru atvinnulausir og þegar að þeir heyra af „stripshowi” í bænum sjá þeir fram á skjótfenginn gróða.„Strákarnir fara alla leið og að lokum standa þeir berstrípaðir”, sagði Andrés Sigurvinsson leikstjóri sýningarinnar sem tók þó fram um leið að takmarkið sé ekki klám heldur erótík. „Við fylgjum sýningunni einfaldlega eftir”. Sýningin hefur þróast í samvinnu leikhópsins og þýðenda og er því að hluta til orðin sjálfstætt verk. Að sögn Andrésar hafa æfingar gengið vel en þær hafa verið keyrðar á mettíma vegna veikinda leikstjórans. „Hér hafa allir lagst á eitt til þess að gera þetta sem best úr garði. Auðvitað er það meira mál þegar á að fækka fötum og það er stórátak fyrir alla leikara að leika naktir en æfingar hafa gengið vel og það hafa allir talað tæpitungulaust um þessa hluti”. Andrés hefur áður leikstýrt Fréttaveitu Suðurnesja hjá L.K. árið 1991 og starfaði hann með leikfélagi Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Vox Arena á síðasta ári. „Við höfum unnið af fullum krafti í mánuð og ætlum okkur að koma upp góðri sýningu. Þrátt fyrir að hér séu margir ungir og óreyndir leikarar er hörkulið hér í Keflavík og Keflvíkingar búa hér að góðu „atvinnuáhugaleikhúsi”. Verkefnaval L.K. hefur verið fjölbreytt og metnaðarfullt en helst hefur vantað að bæjarbúar sýni því starfi sem hér fer fram nægan áhuga”. Áhugann vantar þó ekki á Stæltum stóðhestum og ætti fólk að tryggja sér miða sem fyrst. Að sögn Andrésar er sýningin fyrir alla aldurshópa en fyrst og fremst samfelld skemmtun þar sem allt getur gerst.