Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Miðvikudagur 25. desember 2002 kl. 11:00

Langlíf systkini að austan

Vilhjálmur Norðfjörð Þorleifsson verður 67 ára gamall þann 18. janúar nk., en hann er fæddur og uppalinn á Neskaupsstað. Vilhjálmur á 11 systkini á lífi og er hann yngstur í röðinni. Vilhjálmur fluttist til Keflavíkur árið 1956 og hefur búið hér síðan. Síðastliðin 33 ár hefur hann starfað hjá Keflavíkurbæ og íbúar Suðurnesja muna eftir honum við hreinsunarstörf í bænum. 11 systkini Vilhjálms eru á lífi og hafa þau verið í rannsóknum á vegum Íslenskrar erfðagreiningar þar sem vísindamenn fyrirtækisins vilja rannsaka langlífi í systkinahópnum, en þau eru öll komin á háan aldur. Ingvar, bróðir Vilhjálms lést úr krabbameini 43 ára gamall og segir Vilhjálmur að þeir hafi verið góðir vinir: „Ég sé mikið eftir honum, enda mjög vandaður maður. Systursonur minn, Ingvar Sigurðsson leikari er skýrður eftir honum,“ segir Vilhjálmur og barrokk tónlistin ómar um stofuna, enda er Vilhjálmur mikill áhugamaður um sígilda tónlist.

Foreldrar Vilhjálms voru Þorleifur Ásmundsson og María Aradóttir. Þorleifur var svokallaður útvegsbóndi, en hann reri til fiskjar og hélt nokkrar rollur. María var mikill skörungur segir Vilhjálmur og stjórnaði heimilinu af miklum skörungsskap: „Lífsbaráttan var hörð á þessum tíma og það var nú ekki um auð að ræða í þá daga. Þetta var stór systkinahópur og marga munni að metta. Tveir elstu bræður mínir hófu sjómennsku 9 og 10 ára gamlir og það þurftu allir að hjálpast að. Annar þessara bræðra minna er enn lifandi í dag, en hann er 89 ára gamall, næstelstur í systkinahópnum. Geturðu ímyndað þér í dag að svo ungir krakkar fari að vinna fyrir sér og fjölskyldu sinni?,“ spyr Vilhjálmur og það er erfitt fyrir blaðamann að ímynda sér það, nánast ómögulegt.
Móðir Vilhjálms eignaðist hann 41 árs gömul, en fyrsta barnið átti hún aðeins sautján ára gömul. Vilhjálmur segir að hún hafi verið mikill skörungur: „Þó að mamma væri búin að eignast svona mörg börn þá var hún mjög vel vaxin kona og glæsileg í alla staði. Það sást ekki á henni að hún hafi verið að eiga börn. Mamma stjórnaði heimilinu af skörungsskap en pabbi var aftur á móti svona blíðari maður.
Dr. Björn Bjarnason íslenskufræðingur frá Viðfirði er móðurbróðir Vilhjálms og segir hann að móðir sín hafi lagt mikið upp úr því að börnin hennar töluðu rétta íslensku: „Maður var leiðréttur ef maður sagði einhverja vitleysu. Hún var mikil málfræðikona. Þegar Halldór Halldórsson doktor í íslensku, frændi okkar, byrjaði að tala í útvarpið um íslenskt málfar þá versnaði hún um allan helming og var alltaf að leiðrétta mann. Það var dálítið gaman af þessu og maður gerði kannski í því að athuga hvort hún myndi leiðrétta mann,“ segir Vilhjálmur og skellihlær.

Á sleða niður fjallið
Hugur Vilhjálms leitar oft á æskustöðvarnar og hann segir að þar hafi bernskan verið góð: „Það var gott að alast upp á Neskaupsstað og ég held mikið upp á staðinn. Ég man eftir því að einu sinni fór ég og Janus Ragnarsson vinur minn upp í fjallið fyrir ofan Neskaupsstað á aðfangadag með sleða og það voru klakabungur og harðfenni í hlíðinni. Við renndum okkur þar niður og náðum það mikilli ferð að ég vissi ekkert hvað við áttum að gera þannig að ég tók þá ákvörðun að stýra sleðanum á olíutunnu sem var úr stáli og frosn í jörð. Þegar við rákumst á tunnunna losnaði hún frá og við þeyttumst langar leiðir af sleðanum. Fyrir neðan var girðing og stöðvuðum við á girðingu, en handan við hana var sjórinn og við vorum heppnir að fara ekki í gegnum girðinguna og út í sjó,“ segir Vilhjálmur og hefur gaman af því að rifja þetta atvik upp.

Erfið veikindi frá barnæsku
Frá barnæsku hafa veikindi hrjáð Vilhjálm, en upphaf veikindanna má rekja til þess þegar hann var kaffærður í sundlauginni í Neskaupsstað, en eftir þetta fór að grafa í eyranu á Vilhjálmi: „Það byrjaði að grafa í vinstra eyranu á mér en síðan færðist þetta út í hægri kinnholuna. Ég hef þurft að fara 8 sinnum í aðgerð og þegar ég var 25 ára gamall fór ég í aðgerð þar sem ég var á milli lífs og dauða. Það munaði ekki miklu þá að ég hefði farið skal ég segja þér. Eftir þetta hef ég verið undir stöðugu eftirliti,“ segir Vilhjálmur og brosir, en daginn áður en aðgerðin átti að fara fram var Vilhjálmur nýkominn frá lækni og ákveður hann þá að ganga rúnt í miðbæ Reykjavíkur: „Þetta var eins og uppljómun og ég verð að segja að þetta var einn fallegasti dagur sem ég hef upplifað. Mér fannst allt í kringum mig hafa svo mikinn tilgang, jafnvel stéttin sem ég gekk á,“ segir Vilhjálmur en á þessum tíma áttaði hann sig á alvarleika veikinda sinna.

Varð fyrir einelti
Þegar Vilhjálmur fæddist kom í ljós að augnlok hans voru lömuð og segir Vilhljálmur að sér hafi verið strítt mikið á því: „Ætli það megi ekki kalla það að ég hafi verið lagður í einelti eins og það er kallað í dag. En ég hef alla tíð verið sterkur og gat slegið frá mér. Í þá daga var það eina sem dugði. En auðvitað var þetta mjög erfitt og tók á sálina. Ég hef farið í aðgerðir vegna augnlokanna og það er allt í fína lagi í dag,“ segir Vilhjálmur og þegar litið er í björt augu hans sér maður að aðgerð hefur verið gerð á þeim.
Vilhjálmur fluttist til Keflavíkur 1956, eftir að hafa búið í Reykjavík árið á undan: „Ég vann á flugvellinum í nokkur ár og starfaði fyrst í þvottahúsinu og síðan starfaði ég í bakaríi sem þar var. Eftir það fór ég að vinna hjá Keflavíkurbæ og hef starfað þar í 33 ár, en ég hætti sáttur í ágúst á þessu ári,“ segir Vilhjálmur og heldur áfram: „Ég er nú ekkert farinn að starfa með eldri borgurum en það ætla ég mér að gera fljótlega.“

Skýrður í höfuðið á Vilhjálmi
Hjá systur sinni Guðrúnu Maríu Þorvaldsdóttur og Ingvari Hallgrímssyni rafvirkjameistara bjó Vilhjálmur í 30 ár og segir Vilhjálmur að hann standi í mestri þakkarskuld við þau hjón: „Ég bjó hjá þeim í öll þessi ár og leið óskaplega vel hjá þeim. Fyrir fjórtán árum keypti ég mér íbúð í Heiðarholtinu og þar líður mér mjög vel. Mér var sýndur mikill heiður þegar systir mín og maður hennar ákváðu að skýra son sinn í höfuðið á mér,“ segir Vilhjálmur en sonurinn ber nafnið Vilhjálmur Norðfjörð.
Vilhjálmur hefur í gegnum tíðina hjálpað fólki sem minna má sín og fyrir stuttu veitti félagið Þroskahjálp á Suðurnesjum honum viðurkenningu fyrir það að hafa haft Óskar Ívarsson starfsmann Reykjanesbæjar undir sinni handleiðslu: „Ég hef verið eins og pabbi hans í gegnum tíðina og hugsað um hann eins og ég ætti hann. Auðvitað hefur þetta oft verið erfitt en Óskar er mjög góður maður og gefur mikið af sér.“

29 sumur á Neskaupsstað
Árið 1960 eftir stóru aðgerðina fór Vilhjálmur austur á Neskaupsstað, en bróðir hans, Stefán Þorleifsson íþróttafrömuður var forstöðumaður á sjúkrahúsinu þar. Þegar Vilhjálmur var búinn að jafna sig eftir aðgerðina bauð bróðir hans honum starf sem sendill á sjúkrahúsinu sem hann þáði: „Í 29 sumur eftir þetta fór ég austur og starfaði þar sem sendill á sumrin. Ég notaði sumarfríin mín til þess og þetta var mjög gefandi starf, þ.e. að aðstoða sjúklingana sem þarna lágu á allan hátt. Þegar ég fór á haustin þá fór gamla fólkið að spyrja mig hvort ég kæmi ekki aftur næsta sumar og ég lofaði því alltaf og gat ekki svikið það,“ segir Vilhjálmur og hlær en bætir því við að sérstakur vinskapur hafi tekist á milli sín og gamals manns sem lá á sjúkrahúsinu, en hann var með Parkinson sjúkdóminn: „Þessi gamli maður varð alltaf agalega glaður að sjá mig þegar ég kom á vorin. Ég leyfði honum að koma með mér í bíltúra þegar ég var að sendast og hann ljómaði þegar hann fékk að fara með. Síðustu árin þurfti ég að halda á honum út í bíl, en alltaf var hann jafn glaður og hafði gaman af því að fá sér bíltúr með mér.“

Bróðir Vilhjálms, Guðni Þorleifsson lést fyrir einum mánuði síðan, en fyrir 25 árum greindist hann með MS sjúkdóminn. Vilhjálmi fannst gaman að fara með hann í bíltúra og gera eitthvað með honum: „Hann var í hjólastól og með hækjur síðustu árin. Bróðir minn var hörkuduglegur en hann byrjaði 9 ára gamall að róa með föður mínum. Hann lést 88 ára gamall.“
Vilhjálmur hefur í gegnum tíðina unnið mikið með veiku fólki og segir hann að það hafi gefið honum mikið: „Allt líf byggist á hamingju mannsins og menn mega ekki gleyma mannkærleikanum, því hann er ljós í lífi mannsins,“ segir Vilhjálmur.

Nennir ekki að hanga
Íbúar Suðurnesja hafa án efa séð Vilhjálm á gangi um bæinn vera að týna upp rusli sem hent hefur verið á göturnar: „Ég er algjörlega menntunarlaus maður vegna heilsuleysis míns. Þegar fólk hefur verið að skjóta á mann að maður sé í ruslinu þá hef ég nú alltaf spurt það að því hvort það vilji hafa bæinn sinn í skítugum sparifötum og þá á ég við hvort það vilji hafa allt í rusli. Ég hef líka spurt fólk að því hvort það viti af hverju orðið menning er komið, en það er komið af orðinu mennska og ég hef bent fólki á það að það sé ómennska að henda rusli í götuna. Það er hluti af menningunni að halda bænum hreinum og það er hluti af vellíðan fólksins í bænum að hafa snyrtilegt í kringum sig,“ segir Vilhjálmur og bætir því við að þegar hann fór að starfa við að týna rusl hafi hann strax vitað það að hann gæti orðið fyrir aðkasti vegna starfs síns: „Ég hef verið í Karlakór Keflavíkur frá því ég kom hingað og árið 1959 fórum við í söngferðalag norður í land og þá vorum við taldir vera best þjálfaði kór á landinu, en það sagði Páll Ísólfsson. Ég hneykslaðist mikið á því þegar ég kom þarna norður þegar maður talaði í hófi sem haldið var eftir tónleikana. Hann sagði að hann hefði nú aldrei trúað því að það þrifist svona góður kór í Keflavík því hann héldi að það þrifist nú aðallega slor og skítur á götunum í Keflavík. Ég hugsaði með mér að ef ég kæmist í aðstöðu til að hafa áhrif á þetta þá myndi ég gera það. Þegar ég fór svo að vinna hjá bænum þá var reglulega verið að senda mann í það að týna rusl og einn daginn spurði ég verkstjórann minn hvort ég mætti ekki bara snúa mér að því að týna rusl og það var samþykkt. Ég vildi bara geta gengið að hlutunum og hafa ákveðið verksvið. Ég er voðalega lélegur við það að hafa ekkert að gera því ég nenni ekki að hanga,“ segir Vilhjálmur
Fyrir tveimur árum keypti Vilhjálmur, ásamt systkinum og systkinabörnum æskustöðvarnar á Neskaupsstað og segist Vilhjálmur fara þangað á hverju sumri: „Ég var á Neskaupsstað síðasta sumar og var að mála og dytta að húsinu. Mér finnst voðalega gott að koma þangað og ætla mér að gera það áfram. Ég fer næsta sumar ef maður heldur heilsunni,“ segir Vilhjálmur eins og honum er von og vísa.

Erfitt áfall
Fyrir nokkrum árum kynntist Vilhjálmur hollenskri konu á Neskaupsstað sem starfaði sem sjúkraþjálfari á sjúkrahúsinu. Árið 1986 lést konan á sviplegan hátt í fjallinu fyrir ofan Neskaupsstað, en hún var þar að ljósmynda. Vilhjálmur segir að hann hafi beðið hana um að fara ekki í fjallið því þar gætu leynst hættur þegar vetur gengi í garð, en andlátið hafði mikil áhrif á hann: „Ætli maður komist nokkurn tíma yfir þetta. Andlát vinkonu minnar er það erfiðasta sem ég hef upplifað. Hún hét Karen og var ofsalega vel gerð manneskja. Við vorum mjög góðir vinir og áttum mjög vel saman,“ segir Vilhjálmur og þessi erfiði atburður situr greinilega djúpt í hjarta hans. Karenar var leitað í 3 daga áður en hún fannst, en hún féll ofan í gil í fjallinu fyrir ofan Neskaupsstað. Á vegg í íbúð Vilhjálms hangir málverk þar sem fjallið blasir við og á myndinni er einnig rós sem tákn um lífið eftir dauðann: „Foreldrar Karenar hafa boðið mér tvisvar sinnum út til Hollands og er mér minnisstæður sá mikli kærleikur sem þau sýndu mér.“
Eins og áður segir hætti Vilhjálmur að vinna í ágúst og nú er hann að dútla sér í ýmsum hlutum: „Núna er maður bara að undirbúa jólin og þegar þú komst þá var ég á leiðinni út á svalir að setja upp jólaseríu,“ segir Vilhjálmur og hlær og það er alltaf stutt í hláturinn hjá þessum lífsreynda og sterka manni: „Jólin eru hátíð ljóssins og á þeim tíma, sem öllum öðrum, á mannkærleikurinn að leika um alla. Eins og ég sagði áðan skiptir kærleikurinn mestu máli í lífinu,“ segir Vilhjálmur að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024