Langar að skrifa barnabók
Hefur tvívegis fengið rithöfundarlaun á tveimur árum.
Sandgerðingurinn Sigurlín Bjarney Gísladóttir er fædd 1975. Hún lauk meistaranámi í ritlist í fyrra og er núna í meistaranámi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Hún hefur gefið úr þrjár bækur; ljóðabókina Fjallvegi í Reykjavík (2007), ör- og smásagnasafnið Svuntustreng (2009) og ljóðabókina Bjarg (2013). Bjarney hefur tvisvar sótt um styrk úr rithöfundasjóði og í bæði skiptin fengið úthlutað þriggja mánaða launum.
„Maður byggir umsóknina á handriti sem maður ætlar að vinna að, hvar og hvernig og svo framvegis. Ég fékk rithöfundarlaun fyrst í fyrra og þá rættist gamall draumur. Gaman að fá svona þrátt fyrir að þrír mánuðir séu mjög fljótir að líða.“ Þegar hún gaf út bókina Svuntustreng fékk hún útgáfustyrk. „Það var mjög góður styrkur sem gott var að fá því annars hefði ég aldrei getað gefið út þá bók. Svona styrkir geta hjálpað fólki mikið sem er að byrja að gefa út efni. Þeir eru veittir hverjum og einum einu sinni.“
Áhyggjur algjör óþarfi
Bjarney segir nóg að gera hjá sér. Hún býr ein með tvö börn, 10 ára dóttur og 4 ára son, í miðborg Reykjavíkur. „Ég er með nokkur handrit sem ég þarf að velja úr sem mig langar að spreyta mig á. T.d. langar mig að skrifa barnasögu sem kemur í ljós hvort verður bók. Svo eru þrjú önnur handrit sem kalla á athygli.“ Spurð um hvernig hlutirnir gangi upp fjárhagslega á námslánum segir Bjarney mesta furðu að það gangi upp. „Námslánin eru lág en ég vinn aðeins verkefni með. Ég hef einhvern veginn ekki þurft að hafa miklar áhyggjur af fjarmálum. Þetta hefur alltaf reddast hjá mér. Ég hef ekki úr miklu að moða en það óþarfi að vera með einhverjar áhyggjur. Þær hjálpa ekkert,“ segir hún.
Heldur sambandi við samnemendur
Bjarney er uppalin í Sandgerði frá 7 ára aldri, var öll grunnskólaárin þar og kláraði svo stúdentinn í FS. „Árgangurinn minn í grunnskóla var mikið saman gegnum skólagönguna og við stelpurnar höldum enn mikið hópinn. Þetta er svona hálfgerður saumaklúbbur sem hittist um fjórum sinnum á ári.“ Hún segist reyndar alltof sjaldan fara til Sandgerðis og það sé mjög gaman að fara þangað. „Við héldum upp á 25 ára fermingarafmælið um daginn. Það var mjög vel heppnað og við ætlum að hittast á fimm ára fresti.“ Bjarney byrjaði að skrifa efni í grunnskóla. „Ég gerði einhver bullljóð og spennusögur á svipuðum tíma og ég las bækur Enyd Blyton. Í 8. bekk skrifaði ég leikrit sem við settum upp á árshátíð. Hef aðeins verið að prófa að skrifa leikrit á ný og á tvö slík í handraðanum ef einhver hefur áhga á að setja þau upp.“ segir Bjarney vongóð.