Landsgangan 2007: Hilmari og Gunnari gengur vel
Vogamennirnir Hilmar og Gunnar sem lögðu í gönguferð frá Fonti á Langanesi að Reykjanestá eru nú komnir að Þjóðrsárverum, en þeir eru að safna fyrir Ungmennafélagið Þrótt í Vogum undir yfirskriftinni Landsgangan 2007. Þeir eru nokkuð á undan áætlun þar sem hefur viðrað vel á þá.
Eftirfarandi er samantekt frá stuðningsfólki þeirra:
Gangan frá Fonti gengur mjög vel. Þeir Hilmar og Gunnar eru að fara yfir Þjórsárver í dag og hafa því farið nokkuð hraðar yfir en þeir gerðu upphaflega ráð fyrir. Það hefur viðrað ágætlega á þá í ferðinni. Fyrstu dagana var að vísu þoka og ekki mikið útsýni en þeir fengu gott veður frá Heljardalsfjöllum og í Möðrudal. Þegar komið var í Möðrudal léttu þeir aðeins á bakpokunum og sendu heim 3 kg af búnaði sem þeir töldu sig geta verið án. Þar gafst þeim líka tækifæri á að kaupa auka mat. Um síðustu helgi ringdi nokkuð hressilega á þá félaga þegar þeir voru að nálgast Öskju svo þurrka varð allan búnað í skálanum í Öskju. Eftir það tók við tveggja daga ganga um Ódáðahraun þar sem þeir báru allt vatn með sér, sú ganga gekk vel og gengu þeir um 40 km á dag.
Vonast þeir til þess að ekki verði mikið í ánum í dag þegar þeir þurfa að fara yfir Þjórsárkvísl en þeir voru þó bjartsýnir á að Verin yrðu skemmtileg yfirferðar og góð tilbreyting að komast aftur inn á gróið svæði eftir auðnina undanfarna daga.
Fólk hefur heyrt eitthvað af göngunni þeirra sérstaklega eftir að lítil frétt birtist í Fréttablaðinu á síðastliðinn föstudag. Í Nýjadal hittu þeir t.a.m. ferðafólk sem hafði lesið um þá í fjölmiðlum og buðu þeim í samlokur og ávexti. Þeir voru mjög ánægðir að fá ferskmeti enda hafa þeir lifað á þurrmat frá því að gangan hófst. Hilmar sagði að sjaldan hefði appelsína bragðast jafn vel.
Þeir félagar gera ráð fyrir að vera komnir í Kerlingarfjöll á morgun, fimmtudag og á Þingvelli á mánudagskvöld ef allt gengur vel.
Smellið hér til að lesa grein VF um átakið