Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Læsti sig úti á nærbuxunum - „Frábært að eiga góða nágranna“
Föstudagur 11. febrúar 2011 kl. 15:44

Læsti sig úti á nærbuxunum - „Frábært að eiga góða nágranna“

Njarðvíkingurinn Örvar Kristjánsson körfuknattleiksþjálfari hjá Fjölni komst heldur betur í hann krappan í ofsaverðrinu sem gekk yfir Suðurnesin í nótt. Hann var einn í kotinu og vaknar við læti af pallinum og sér að lokið af heita pottinum er fokið upp. Örvar hyggst þá kippa því í liðinn snöggvast, vindur sér út á nærbuxunum einum klæða og skellir lokinu á og festir niður með hellu. Þegar hann ætlar sér svo aftur inn um svefnherbergishurðina sem liggur að pallinum vildi ekki betur til en hún hafði lokast í rokinu og Örvar því læstur úti. Blaðamaður náði tali af Örvari eftir að hann hafði geint frá þessu á facebook síðu sinni við mikil viðbrögð og spurði hann út í málið en hann býr í parhúsi í Innri-Njarðvík.

„Þau þekkja mig já og eru yndislegt fólk, þau voru sem betur fer heima enda engir aukalyklar nærri en þau hlógu mikið sem og nágranninn fyrir framan sem sá mig hlaupa um á nærbuxunum um hánótt í þessu veðri,“ sagði Örvar þegar hann var spurður út í viðbrögð nágrannanna þegar hann bankaði hálfnakinn uppá hjá þeim um miðja nótt. „Það er frábært að eiga svona skilningsríka nágranna, í Bandaríkjunum yrði maður sennilega skotinn fyrir að banka svona uppá.“ Svo fór að lokum að með hjálp nágrannanna komst Örvar inn um glugga en áður hafði hann hringt á lyklasmið sem fór því miður fýluferð. „Ég borgaði lyklasmiðnum eigi að síður og er bara virkilega þakklátur að hafa komist inn og að ekki hafi verið frost úti,“ sagði Örvar og bætti því svo við að maður yrði nú að hafa húmor fyrir þessu sem og sjálfum sér. Kunnum við Örvari kærar þakkir fyrir að deila þessu skondna atviki með okkur en það yrðu sennilega ekki allir tilbúnir til þess en Örvar er jafnan þekktur fyrir að vera með húmorinn í lagi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024