LÆRIR FIÐLUSMÍÐI Á SLÓÐUM HRÓA HATTAR
Jón Marínó Jónsson er ungur Keflvíkingur sem hefur látið gamlan draum rætast. Hann lærir nú fiðlusmíði og viðgerðir nálægt Skíriskógi í Englandi og hefur þegar smíðað tvær fiðlur. Dagný Gísladóttir ræddi við hann um námið, fiðlurnar og framtíðarhorfur á Íslandi.Jón Marinó Jónsson dvelur ásamt fjölskyldu sinni í smábænum Newark í Notthinghamshire, nálægt söguslóðum Hróa hattar, en þar nemur hann fiðlusmíði við Newark and Sharewood collage.Utanförina má rekja til útvarpsviðtals við unga konu í Reykjavík sem þá hafði nýlokið námi í fiðlusmíði frá skólanum en Jón Marinó hafði þá leitað að slíku námi um nokkurt skeið.Kona Jóns Marinó, Jóna Björk Guðnadóttir og börn þeirra tvö, Sonja Sigríður 4 ára og Sölvi Steinn tæplega tveggja ára fylgdu með í för haustið 1997 og er Jón Marinó nú á sínu öðru skólaári.Í skólanum lærir Jón Marinó fiðlusmíði og viðgerðir. Nemendur smíða fiðlur, víólur og selló frá grunni og að sögn Jóns Marinó fá þeir tréð sagað beint frá verksmiðjunni og lýkur þeirra vinnu þegar hægt verður að leika á það.„Það tekur um 180 klukkustundir, eða mánaðarvinnu að fullvinna eitt hljóðfæri. Sellóið tekur lengri tíma eða 2 - 2 1/2 mánuð“, segir Jón Marinó. Það kom honum á óvart hversu margir störfuðu í raun við fiðlusmíði í heiminum.„Þetta er mjög fjölmenn stétt og það kom mér nokkurt á óvart. Það eru tveir sem starfa við fiðlusmíði og viðgerðir hér heima en þar til fyrir svona 2-3 árum var enginn sem starfaði við iðnina.“En af hverju ákvað Jón Marinó að nema fiðlusmíði?„Það er nú löng saga að segja frá því“, segir Jón Marinó og hlær. „Erlingur Jónsson kenndi mér smíðar í Gagnfræðaskóla Keflavíkur og hann vakti áhuga minn á tréskurði. Hann nefndi það við mig að ég ætti nú að leggja þetta fyrir mig en ég var svo ungur þá. Þótt ég hefði áhugann þá var langt að sækja nám og til þess þurfti kjark. Ég lærði húsasmíði og stofnaði fyrirtæki í Keflavík ásamt þremur öðrum er nefnist Fjölin sf. En þrátt fyrir allt þá kraumaði áhuginn á útskurði alltaf undir niðri og tækifærið gafst árið 1996 þegar ég heyrði af skólanum. Ég fór út í viðtal og fékk strax inngöngu“.Jón Marinó hefur fengið mjög góðar umsagnir í skólanum og gengið vel. Hafa skólayfirvöld gefið honum leyfi til þess að ljúka síðasta árinu hér heima, en þá smíða nemendur selló frá grunni. Það er ekki öllum nemendum treyst til slíks en Jón Marinó segir það sýna að hann hafi staðið sig ágætlega. En verður nóg að gera við fiðlusmíðar og viðgerðir hér heima á frónni?„Já, ég held það og ég er mjög bjartsýnn. Ég ætla að hafa nóg að gera - það er svo einfalt. Það er nóg af hljóðfærum viðsvegar um landið sem þarfnast viðgerða og ég er ákveðinn í því að skapa mér lífsviðurværi í greininni“.