Læðurnar taka lag eftir Bubba
Sýnishorn frá Með blik í auga
Undirbúningur að lokasýningu þríleiksins Með blik í auga er þessa dagana í hámarki en nú verður tónlist og tíðarandi áratugarins 1980 - 1990 í brennidepli undir yfirskriftinni: Hanakambar, hárlakk og herðapúðar.
Sýningin er hluti af hátíðardagskrá Ljósanætur og hefur rækilega slegið í gegn undanfarin ár.
Meðal flytjenda eru Valdimar Guðmundsson, Lísa Einarsdóttir, Hjörleifur Már Jóhansson, Sólmundur Friðriksson, Hlynur Þór Valsson, Melkorka Rós Hjartardóttir, Sólborg Guðbrandsdóttir, Sigríður Guðbrandsdóttir og Andrea Lind Hannah. Fjórtán manna hljómsveit leikur undir.
Þegar er að verða uppselt á frumsýningu og miðasala gengur vel að sögn aðstandenda sýningarinnar. Æfingar eru í fullum gangi og tónleikahaldarar lofa góðri skemmtun.
Hér má sjá myndband frá æfingu þar sem þær Melkorka Rós Hjartardóttir, Sólborg Guðbrandsdóttir, Sigríður Guðbrandsdóttir og Andrea Lind Hannah, eða læðurnar eins og þær eru kallaðar meðal tónleikahaldara, spreyta sig á lagi Bubba Morthens, Rómeó og Júlía.